Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 15:12:18 (182)


[15:12]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir hefur fullan skilning á því að ekki er jafnsnjallt og sýnist að halda áfram hátekjuskatti og ég get lýst því yfir að ég er sammála henni varðandi það atriði.
    En það er annað sem ég vil nefna hér sem kom fram hjá hv. þm. sem getur orkað tvímælis og það er þegar hv. þm. er að nota skýrslu Ríkisendurskoðunar til að sýna fram á hve laun hafa takmarkast og kaupmáttur á nokkurra ára bili og kenna núv. ríkisstjórn um. Málið er nefnilega það að Ríkisendurskoðun skoðar bilið frá 1988 til 1993 og langsamlega stærsti hluturinn er vegna aðgerða fyrrv. ríkisstjórnar sem þarna er verið að tala um. Þegar við lítum á tölurnar þá kemur í ljós að heildarskattar hafa lækkað um 1 milljarð í tíð þessarar ríkisstjórnar en hækkaði til samanburðar í tíð fyrrv. ríkisstjórnar um 11 milljarða, m.a. á þessum einstaklingum vegna þess að reglur breyttust. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson stóð fyrir því og ríkisstjórn sem hann sat í ber ábyrgð á þessu.
    Nú er það svo að þegar breytingar voru gerðar hjá núv. ríkisstjórn þá var á móti lækkað matarverð í landinu. Virðisaukaskatturinn var færður niður og aðstöðugjald var lækkað sem sannarlega kom fram í lægra vöruverði. Þetta hefur m.a. orðið til þess að verðbólga er engin og þannig tryggt að kaupmátturinn hefur ekki rýrnað. Þetta er munurinn á tveimur ríkisstjórnum og það er ekki hægt að leggja saman þetta tvennt úr hólfum beggja ríkisstjórna og segja svo að það sé núv. ríkisstjórn að kenna hvernig komið er í þessu máli sem hv. þm. vitnaði til. Þar verður hún að líta sér nær.