Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 15:18:40 (185)


[15:18]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi misskilið svolítið það sem ég sagði. Ég var að vitna í hvítu bókin þar sem talað var um aðgerðir í skatta- og félagsmálum sem kæmu hinum lægst launuðu til góða. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það eru ekki aðeins skattar sem eru vandamálið. Hefur ráðherrann gleymt því sem búið er að leggja á fólk sem leita þarf læknis? Það eru gríðarlegar upphæðir sem fólk verður að greiða fyrir hvað lítið sem er og því miður er nú ástandið þannig að fólk hefur mjög dregið úr t.d. að láta fylgjast með tannhirðu barna sinna. Fólk fer ekki til læknis út af einhverjum smámunum. Það fer helst ekki til læknis eða kaupir lyf nema það nauðsynlega þurfi. Þetta er ekki það heilbrigðiskerfi sem við vildum reka og ég held að fyrrv. hæstv. fjmrh. hafi ósköp lítið með þessar aðgerðir að gera. Ég hef hins vegar engan áhuga á að verja hans fortíð á nokkurn hátt enda reyndi ég að segja í upphafi ræðu minnar að ég mundi reyna að halda mig við nútímann og reyna að ræða þetta fjárlagafrv. sem við erum að ræða um hér málefnalega. Ég vænti þess að menn geti haldið þá reglu því hér er um alvarlegri mál að ræða en svo að menn eigi að fara að bítast um það hvort eitthvað hafi verið gert í ráðherratíð flokksformanns míns og það verði aðalumræðuefni hér. Núv. hæstv. fjmrh. hefur setið hér fínn og fallegur í fjögur ár bráðum og það er hann sem við erum að ræða um og við.