Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 15:43:31 (188)


[15:43]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér er vel kunnugt um það að ríkisstjórnin hefur búið sér til ákveðna reglu í þessu sambandi og leggur til sjóðsins ákveðið hlutfall eða 54% af áætlaðri námsaðstoð. En það breytir auðvitað ekki því að þessum sjóði hefur verið vísað út á hinn almenna lánamarkað og það er mjög athyglisvert að skoða þær tölur sem hér er að finna yfir sjóðinn, þar sem það kemur berlega í ljós hversu mikill hluti af fjármagninu fer í það að borga vexti og lán. Þetta er grundvallarspurning sem við erum að fást við og ræddum hér mikið þegar lánasjóðurinn var til umræðu, þ.e. hvert á framlag ríkisins að vera til námsaðstoðar og hvernig er eðlilegt að hafa þau mál. En það vekur athygli mína að hér á bls. 355 í frv. er vikið að þessu endurmati varðandi sjóðinn og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Leiði endurmat á kostnaðarhlutfallinu til annarrar niðurstöðu verða útlánareglur og vaxtakjör sjóðsins endurskoðuð í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar sem áður er lýst.``
    Ég skil þetta þannig að það geti komið til að vextir verði hækkaðir í lánakerfinu, sem er auðvitað mjög alvarlegt mál, og mér sýnist að þær áhyggjur sem við höfðum af Lánasjóðnum á sínum tíma séu fyllilega réttmætar og að því miður munum við standa frammi fyrir því á næstu árum, ekki síst í ljósi þeirrar launaþróunar sem hér hefur átt sér stað, að fjöldi lánþega mun eiga í miklum erfiðleikum með að greiða þessi lán. Ég tala nú ekki um ef það er meiningin að hækka vextina í lánakerfinu. Þetta er því mjög alvarlegt mál sem þarna er á ferð.