Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 16:07:10 (193)


[16:07]
     Sigbjörn Gunnarsson (andsvar) :

    Formaður fjárln. hefði óskað þess að staðan væri betri en raun ber vitni og þess hefðum við eflaust öll óskað. Formaður fjárln. hefði jafnframt eins og við öll sem þessari þjóð tilheyrum, og væntanlega hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson líka, viljað búa við það að við hefðum stöðugan afla þorsks upp á 300--400 þús. tonn. Þar hefur aflinn minnkað stórlega niður í um 150 þúsund tonn eins og við öll vitum. Og hvernig í ósköpunum átti mönnum að takast að eyða fjárlagahallanum sem menn höfðu þá sett sér að markmiði miðað við þær aðstæður sem við höfum búið við undanfarin ár? Það var ógerlegt, það var ekki gerlegt og ég bið fólk að hugsa til þess ef þannig hefði verið haldið á spilum hver staða atvinnulífsins, hver staða fólksins í landinu hefði verið.