Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:18:52 (202)


[17:18]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég mun í ræðu minni síðar í dag svara því sem hefur komið fram hjá hv. þm. mestan part því hann er sérfræðingur í að snúa öllu við og gera svart hvítt og hvítt svart. En það er eitt sem ég tel ástæðu til að ræða núna sérstaklega og það er þegar hann ræðir um skuldir ríkisins og skuldir þjóðarinnar.
    Það er hárrétt hjá hv. þm. að skuldir ríkisins hafa verið að vaxa. Auðvitað fer það ekki öðruvísi þegar halli er á ríkissjóði ár eftir ár. Hitt er hins vegar staðreynd að skuldir þjóðarbúsins erlendis eru nú að minnka, sem betur fer. Það er ekki lengur 20 milljarða halli á þjóðarbúinu eins og var árið þegar hv. þm. hvarf úr ríkisstjórn.
    Auðvitað hafa gengisbreytingar áhrif á skuldir ríkisins erlendis. Það hefur líka áhrif þegar ríkisstjórn þarf að taka yfir gamlar syndir t.d. Framkvæmdasjóðs, Byggðasjóðs, Atvinnutryggingarsjóðs og fleiri aðila. Það hefur líka áhrif þegar á árinu 1992 þurfti að taka erlent lán til að borga upp gamlar skuldir frá árinu áður sem höfðu myndast, eins og þingmaðurinn sagði, fyrri hluta ársins 1991.
    Síðan segir hv. þm.: Hafa ekki skuldir ríkisins tvöfaldast á árunum 1991--1995? Og það er rétt. En hvað haldið þið, hv. þm., að hefði verið sagt ef sá sem var fjmrh. 1988 hefði lýst því yfir að hann ætlaði að tvöfalda skuldir ríkisins --- ekki á heilu kjörtímabili heldur á einu ári. Það hefði eitthvað verið sagt. En hver skyldi hafa gert þetta annar en hv. þm.? Hann er að segja það hér að ég hafi tvöfaldað skuldir ríkisins á heilu kjörtímabili, ég get gefið skýringar á því. Sjálfur tvöfaldaði þessi sami maður, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, skuldir íslenska ríkisins á einu ári.