Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:22:30 (204)


[17:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hv. þm. getur ekki einu sinni þegar hann kemur í tvær mínútur í ræðustól notað þessar tvær mínútur til þess að segja satt. Í fyrsta lagi stendur það svart á hvítu og kemur fram í þessu frv. að hv. þm. tvöfaldaði skuldir ríkissjóðs á einu ári. Það stendur svart á hvítu. Síðan segir hv. þm. að ég sé að bera mig illa undan því að hafa þurft að taka skuldir sem hann skildi eftir yfir á ríkissjóð og bendir á að það sé ekki mikill manndómur í því að setja slíkar skuldir til að mynda inn í Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Við látum tekjur á móti. Ríkissjóður hafði tekjur af sjávarútveginum. Þessar tekjur renna nú til þessa sjóðs til þess að greiða þessar skuldir niður. Það er meiri mannsbragur á því en ( HÁ: Hvaða tekjur eru það?) þegar hv. þm. skildi eftir hjá sér til að mynda það að Byggingasjóður verkamanna hlóð upp skuldum og Lánasjóður ísl. námsmanna hlóð upp skuldum og þeir sem tóku við búinu af hv. þm. hafa þurft að nota heilt kjörtímabil til þess að moka út flórinn eftir hv. þm. Og honum væri sæmra að koma hér upp og byrja á því að segja sannleikann því sannleikurinn er sá og það er rétt að það var tæplega tvöföldun á ríkisskuldunum á heilu kjörtímabili en það var rúmlega tvöföldun á ríkisskuldunum á milli áranna 1988 og 1989. Ég skora á hv. þm. að koma hér upp og viðurkenna að honum hefur orðið fótaskortur á sannleikanum.