Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:43:43 (209)


[17:43]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það fór á alveg sömu leið og hér um daginn að þegar komið er örlítið við kaunin á hv. þm. Framsfl. þá lokast eyrun og þeir heyra eitthvað illa. Í sama húsi og Sjálfstfl. er með höfuðstöðvarnar eru seld tæki sem hjálpa mönnum sem heyra illa eða heyra óskýrt. Þau eru sett svona inn í og það er hægt að stilla pínulítið. Vegna þess að ég sagði aldrei að skattsvik hefðu aukist. Ég sagði að það yki möguleikana á þeim og það er allt annað, hv. þm. (Gripið fram í.) Það er allt annað, það eykur möguleikana. Ef hv. þm. skilur það ekki þá fer ég nú að skilja margt í hans málflutningi betur en áður.
    Það voru skýr skilaboð loksins frá Framsfl. til fólksins í landinu. Við ætlum að hækka matarverð ef við komumst til valda. Við ætlum að taka upp á nýtt matarskatt. Það komst loksins til skila. Það þurfti að spyrja þá nokkrum sinnum að því, en þetta eru skilaboðin. Við ætlum að auka byrðarnar á ykkur, kæra fólk, sem reyndar hafið nægar byrðar í dag. Mér þykir þetta afar athyglisvert. Mér þykja þetta reyndar bágleg tíðindi, en þó ekki, vegna þess að nú veit fólk þetta og ég held að það detti ekki nokkrum heilvita manni í hug að fara að kalla slíkt yfir sig, ekki nokkrum heilvita manni.
    Hvað varðar hins vegar skýrslu Ríkisendurskoðunar, þá stend ég við það sem ég sagði áðan. Auðvitað auka fleiri þrep möguleikana á skattsvikum. Að sjálfsögðu. Það þarf ekki að kosta til stórfé Framsfl. í skýrslu frá Ríkisendurskoðun til þess. Og auðvitað verður bókhaldið þyngra í vöfum. Að sjálfsögðu. En til hvers að eyða skattpeningum af almannafé til þess að fá Ríkisendurskoðun til að fara yfir slíkt?