Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:47:52 (211)


[17:47]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er afar athyglisvert að hlusta á framsóknarmenn hér, þeir eru í miklum vandræðum, vegna þess að ég get ekki túlkað málflutning formanns Framsfl. á annan hátt en að hann sé á móti hátekjuskatti. Er það virkilega svo, að Framsfl. sé líka á móti hátekjuskattinum? Hann ætlar að hækka matarverðið, setja matarskattinn á aftur og hann ætlar að létta byrðarnar á hátekjufólkinu. Þetta er nákvæmlega boðskapurinn sem hér var fluttur. Við erum á móti að þrepa skattana, það eykur líkurnar á því að það verði svikið undan skatti. Og hvað gerir þá hátekjuskatturinn? Hann er annað þrep í tekjuskatti einstaklinga. Þar með hlýtur Framsfl. að vera á móti hátekjuskatti. Ja, það eru aldeilis skilaboð sem hér komu í dag. Það eru aldeilis skilaboð. Við ætlum að auka byrðarnar á fólkið í landinu, allan almenninginn, og svo ætlum við að lækka það á hátekjufólkinu. Þetta er nýja stefna Framsfl. Þetta er glæsilegt. Síðan segir hv. formaður Framsfl. að skattsvik hafi aukist. Ég er ansi hræddur um að hann hafi ekkert fyrir sér í því. Ég leyfði mér alla vega að skilja höfuðhreyfingu hæstv. fjmrh. á þann veg að skattsvik hafi ekki aukist. En það getur vel verið að hv. formaður Framsfl. hafi einhverjar aðrar upplýsingar. Ég hef þær ekki. Ég ætla ekkert að fullyrða hvort þau hafi aukist eða aukist ekki. En skilaboðin frá Framsfl. eru auðvitað glæsileg frá hendi hins nýja formanns flokksins.