Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 17:49:48 (212)

[17:49]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Vegna misskilnings um lengd ræðutíma hér í dag, í upphafi fundar, átti ég nokkuð eftir af ræðu minni. Ég hafði hugsað mér að fara nokkuð gegnum áætlanir hinna einstöku ráðuneyta, en verð að stytta mál mitt, sem kemur ekki að sök þar sem félagar mínir í þingflokknum munu einnig ræða ýmsa málaflokka.
    Um málefni forsrn. er ekki mikið að segja. Beðið var um 70 millj. í fjárlögum fyrir árið 1994 til lýðveldishátíðar og auðvitað er ekkert í fjárlagafrv. 1995 um hana. En í frv. til fjáraukalaga 1994, sem lagt var fram í gær, er beðið um 42 millj. til sömu lýðveldishátíðar, þar sem allur kostnaður fór úr böndunum meðan stór hluti hátíðargesta sat fastur á þjóðveginum og komst aldrei til Þingvalla. En það hefur komið í ljós að enginn var ábyrgur og vegna þess sem hv. 5. þm. Reykv. hefur verið að tala um hér í dag, um framlög til íþrótta, þá vil ég benda á að gott hefði nú verið að eiga uppi í erminni þessar 42 millj.
    Ég hlýt að fagna því að margra ára baráttumál mitt, embætti umboðsmanns barna, verður nú að veruleika. Ég vona að hæstv. forsrh. beri gæfu til að ráða til þess mann sem reynslu hefur af starfi með börnum og umfram allt mann sem hefur áhuga á börnum og virðingu fyrir þeim.
    Ég hlýt hins vegar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort allri vinnu við svæðisskipulag Þingvallasvæðisins sé lokið, þar sem fjárveiting til hennar fellur brott. Eða hefur hæstv. ríkisstjórn látið að vilja einhverra þeirra sem þar eiga þröngra einkahagsmuna að gæta? Ég vænti svars við þessari spurningu. Ég er ekki of kunnug því máli, svo allrar einlægni sé gætt.
    Hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, mun fara yfir þátt heilbrrn. hér á eftir. En ef honum skyldi hafa skotist yfir eina setningu hér á bls. 324 í kaflanum um heilbrigðismálin þá stendur hér, með leyfi hæstv. forseta, og ég bið hv. þm. að taka eftir: ,,Útgjöld lífeyristrygginga lækka samtals um 850 millj. kr. Eins og greint er frá í kafla 6.3 hér að framan er ekki áætlað fyrir eingreiðslum í fjárlagalið lífeyristrygginga,`` --- og nú bið ég menn að taka eftir --- ,,einnig er áformað að endurskoða heimildarbætur lífeyristrygginga í m.a. ljósi nýrra laga um húsaleigubætur.``
    Ég vil biðja hv. þingmenn að íhuga hvort nú eigi að fara að láta það bitna á lífeyristryggingum hvort menn fá húsaleigubætur. En ég ætla að öðru leyti að láta heilbrigðisþáttinn eiga sig.
    Ég lýsti í fyrri ræðu minni áhyggjum mínum af alvöruleysi í menntamálum. Á töflu á bls. 291 má sjá hvernig skorið hefur verið niður á öllum sviðum grunnmenntunar á sama tíma og gumað er og gasprað um aukna áherslu á vísindastörf og rannsóknir. Háskóli Íslands verður að treysta á spilafíkn fólks til að fjármagna framkvæmdir sínar og kennarar skólans og raunar kennarar allra annarra skóla berjast í bökkum við að draga fram lífið af launum sínum. Rekstrarframlag til háskólans lækkar samt um 66,4 millj. í frv. til fjárlaga fyrir 1995. Hver er hugsunin í þessu? Sömu sögu er að segja um Kennaraháskólann sem einnig eru stórlækkuð framlög til. Enn furðulegra er þó að sjá að Rannsóknarráð Íslands sem stofnað var í stað Vísindasjóðs og Vísindaráðs, Rannsóknaráðs ríkisins og Rannsóknasjóðs á að fá sömu upphæð og hinar fyrri stofnanir fengu 1994. Samt á ráðið að ,,treysta`` stoðir íslenskrar menningar og atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun, eins og þar segir.
    Frú forseti. Maður hlýtur að spyrja: Hvers konar rugl er þetta?
    Í lið 299 stendur orðrétt: ,,Háskóla- og rannsóknastarfsemi. Framlag lækkar um 27,6 millj. kr. og verður 38,9 millj. kr.``
    Árið 1994 fóru rúmar 300 millj. í EFTA og Evrópska efnahagssvæðið, skrifstofuvinnu fyrir þau góðu fyrirbæri.
    Engin aukning er á framlögum til Námsgagnastofnunar sem um langt skeið hefur verið í fjársvelti. Enn síður stendur til að efla handmennt og verkmennt í grunnskólanum enda ekki fullljóst hver á að reka grunnskólann á næsta ári.
    Þegar komið er yfir í menningararfinn, þennan sem við töluðum svo fallega um á Þingvöllum í sumar, blasir ófögur sjón við. Sú stofnun sem varðveitir hinn sýnilega hluta arfsins, Þjóðminjasafn, er skorin niður bæði í rekstri og framkvæmdum. Framlag til endurbyggingar gamalla húsa er lækkað. Það er e.t.v. stefnan að þetta dót brenni bara smám saman eins og gerðist fyrir skömmu. Það leysti vitaskuld heilmikinn vanda.
    Safnahúsið, þetta eitt fegursta hús landsins, skal nú lækkað um 44% þó að engin ákvörðun hafi verið tekin um rekstur þess.
    Listasafn Íslands á enn að búa við sömu kjör og verið hefur. Önnur söfn skulu enn búa við fjársvelti.
    Hv. 5. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir, gerði Þjóðarbókhlöðu skil og ég skal ekki þreyta hv. þm. á því að endurtaka þau orð. En athyglisvert er að eignarskatturinn frægi skal halda áfram til aldamóta. Og sorglegt er að listskreytingasjóður skuli nú aflagður. Ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann hafi rætt það mál við félaga sinn, virðulegan seðlabankastjóra Birgi Ísleif Gunnarsson, fyrrv. hæstv. menntmrh., sem mjög bar þennan sjóð fyrir brjósti á sínum tíma.
    Önnur sorgarsaga, frú forseti, er niðurskurður á Kvikmyndasjóði. Sú skammsýni sem birtist í því er ótrúleg á tímum samdráttar og atvinnuleysis. Kvikmyndir geta skilað miklum tekjur ef stutt er við bakið á þessari starfsgrein í fyrstu og getur skapað mikla vinnu ef vel er á málum haldið.
    Það er að bera í bakkafullan lækinn að minnast á virðisaukaskatt á bókum og blöðum sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á og hefur þegar haft hörmuleg áhrif á bókaútgáfu í landinu og þekkja þá sögu allir.
    Fjárveiting til íþróttafélaga er bara stutt og laggott afgreidd með hreinni aftöku. Fjárveiting er núll.
    Það þarf hjartahreinni persónu en þá sem hér stendur til að eygja áhuga hæstv. menntmrh. á mennt og menningu í landinu. Eða skilning hæstv. ríkisstjórnar á mikilvægi hvors tveggja fyrir alla framtíð þessarar þjóðar.
    Ég hlýt að spyrja að lokum hæstv. menntmrh. og hef gert það reyndar í virðulegri fjárln. um ástæðuna fyrir því að hann treystir sér ekki til að birta lista yfir fjárveitingar ráðuneytisins úr svokölluðum ráðherrasjóði. Það held ég að sé listi sem við eigum öll rétt á að sjá og veitti okkur ekki af að sjá eitthvað sem gæti glatt okkur sem lagt hefur verið fram til lista og menningar þegar við horfum á þann niðurskurð sem hér er að finna í núverandi frv.
    Rétt að lokum: Ef við færum okkur yfir í sjútvrn. þá hnýtur maður um Hafrannsóknastofnun. Framlög til hennar lækka um 5 millj. í frv. Hún á hins vegar að sækja um fé í lýðveldissjóðinn fræga þannig að sá sjóður er svo sem engin viðbót þegar upp er staðið. Hann á einfaldlega að nota í staðinn fyrir fjárveitingar ríkisins til Hafrannsóknastofnunar. Það þarf ekki mikla skynsemi til að hafa áhyggjur af því hvernig sú stofnun á að ráða við það mikla verkefni sem henni hefur verið fengið og á tímum þar sem við verðum að gæta vel að því sem í sjónum er og hvernig með það er farið.
    Rétt að lokum vegna þess að í upphafi máls míns fyrr í dag minntist ég á hvernig umræða um þjóðmál er í landinu, hvernig áhersla er lögð á það sem sagt er hér á hinu háa Alþingi, hvernig áherslu við leggjum sjálf á það sem við segjum hvert við annað. Það var ekki liðinn langur tími frá ræðu minni þegar ég heyrði af tilviljun í Ríkisútvarpinu, ekki brot eða bita úr langri og allefnismikilli ræðu sem ég flutti hér heldur orðaskiptum okkar hæstv. fjmrh. um hátekjuskatt og andsvör hans. Og trúið mér til, það sem eftir stendur af ræðu minni í fjölmiðlum er það að ég styðji hátekjuskatt. Ég vil þess vegna leitast við að leiðrétta það. Ég lýsti hins vegar efasemdum um þann mælikvarða sem hæstv. ráðherrar og hv. þm. og þjóðin öll leggja á háar tekjur. Ég spyr: Eru það hátekjur sem fréttabréf kjararannsóknanefndar lýsir sem bráðnauðsynlegum (Forseti hringir.) launum til þess að menn hafi í sig og á? Ef það eru háar tekjur og efni í hátekjuskatt þá er ég á móti honum. En ég er ekki á móti hátekjuskatti manna sem hafa kannski ríflega milljón á mánuði og þó minna væri. (Forseti hringir.) Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.