Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:22:34 (215)


[18:22]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér kemur hæstv. menntmrh. og þarf óneitanlega að biðjast afsökunar á ansi mörgum hlutum sem heyra undir hans ráðuneyti. Það vekur upp þá spurningu hjá manni hvort þetta sé alveg í samræmi við málflutning hæstv. forsrh. sem gumar mjög af því hvað ástandið sé gott í þjóðfélaginu á öllum sviðum, efnahagslífið hafi aldrei blómstrað annað eins. Það fer ekki hjá því að maður velti því fyrir sér hvort það sé fyrir linku í hæstv. menntmrh. eða hvort ástæðurnar séu einhverjar aðrar að svo illa er leikinn hans málaflokkur, mennta- og menningarmál. En þar sem hann kom inn á háskólann í sínu máli og vitnaði þar til minna orða þá vil ég endurtaka það að ég var að tala um að miðað við nemendafjölda hefðu framlögin lækkað um 10% frá því hæstv. ráðherra tók við.