Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:52:11 (225)


[18:52]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru eitt eða tvö atriði. Í fyrsta lagi varðandi húsaleigubætur, þá er hugmyndin að þær séu fjármagnaðar með því að það komi 50 millj. beint úr ríkissjóði, það eru 50 millj. sem koma vegna framlags til Byggingarsjóðs verkamanna. Það er vegna þess að við fáum vexti sem eru lægri, vaxtakostnaður sjóðsins er lægri. Það er rétt að það á að fækka byggingum eða kaupum á félagslegum íbúðum. Það eru 250 millj. En 50 millj. sem eiga að koma frá Tryggingastofnuninni af svokölluðum heimildarbótum eru eingöngu fjármunir sem hafa verið notaðir af heimildarbótunum til þess að styrkja þá sem fá húsaleigubætur með lögunum um félagslega aðstoð. Þannig að fólk á að vera jafnsett eftir sem áður. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.
    Í öðru lagi varðandi eingreiðslur, þá skal það tekið fram að það verður að sjálfsögðu fyrir því séð í frv. og er fyrir því séð í frv. og í fjárlögum, að það sé farið að lögunum um almannatryggingar hvað varðar hækkun á bótagreiðslum í takt við hækkanir í kjarasamningum. Þetta var nokkuð til umræðu á yfirstandandi ári. Fjmrn. og ég vildum að þá strax yrði tekið tillit til þess að setja ákveðna fjármuni inn í grunninn í stað þess að vera með þessar eingreiðsluhugmyndir Alþýðusambandsins. Á það var ekki fallist. Alþýðusambandið vildi fá eingreiðslur hvað sem tautaði og raulaði. En við gerum ráð fyrir því hér í fjárlagafrv. að hægt sé að bæta bótaþegum upp það sem kemur út úr kjarasamningum, en það er ekki gert ráð fyrir eingreiðslum eins og þær komu út úr kjarasamningunum, enda engin ástæða til þess, því að við teljum að nú eigi að semja um laun og kjör á milli aðila á vinnumarkaði.