Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:57:42 (228)


[18:57]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg skýrt hvað hér er á ferðinni. Hér er verið að skera niður framlög til Byggingarsjóðs verkamanna um 250 millj. til að taka upp húsaleigubætur og hér er verið að skera niður heimildarbætur almannatrygginga um 50 millj. til að taka upp húsaleigubætur. Það er alveg kristalsklárt og það er líka alveg skýrt að það er ætlun ríkisstjórnarinnar, samkvæmt greinargerð fjárlagafrv., að höggva á hina sjálfvirku tengingu á milli breytinga á launum og ellilífeyri. Það er ætlunin að gera það samkvæmt orðanna hljóðan í textanum í greinargerð fjárlagafrv., þó að það geti hins vegar verið svo að stjórnarflokkarnir muni eiga erfitt með að koma því máli í gegnum þingið. Og ég get alla vega sagt það fyrir mig persónulega, en ekki neina aðra, að það verður auðvitað reynt að taka á móti tilraunum til að skera niður heimildarbætur almannatrygginga og tenginguna við ellilífeyrinn eins og kostur er hér úr þessum ræðustól og annars staðar hér í starfsemi þingsins.
    Ég tel líka ástæðu til að óska eftir því við hæstv. fjmrh., af því hann nefndi samning sem hefði verið undirritaður í apríl sl., að þá vil ég óska eftir því fyrir mitt leyti að fá afrit af þeim samningi þannig að það sé alveg skýrt um hvað er verið að tala í honum.