Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 18:59:10 (229)


[18:59]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hv. 9. þm. Reykv. er mjög svo hávær í ræðustólnum um þessi mál, en ég er mjög ánægð með að heyra hvaða umhyggju hann ber fyrir Alþfl. Mér finnst það vel og gott mál ef það er svo.
    Það er alveg rétt skilið að það var ákveðið að taka tillit til þess þáttar heimildarbótanna sem mundi létta af útgjöldum Tryggingastofnunar við að húsaleigubætur yrðu teknar upp. Eins og við vitum öll þá er húsaleigufyrirgreiðsla í Tryggingastofnun til aldraðra og við höfum gert ráð fyrir því að með þeim húsaleigubótum sem verða teknar upp þá létti af þessum þætti og það var litið til þess, það var skoðað mjög víða, eins og á að gera, hvað gerist þegar ný lagasetning kemur, hvaða aðrir þættir hafa verið til staðar sem breytast þá. Hver talan er nákvæmlega er ég ekki fær um að meta, hvað sé rétt í því, en þetta var skoðað mjög ítarlega af fyrrv. félmrh. og gerði hún það með mikilli umhyggju bæði fyrir öldruðum sem og öðrum sem hún bar fyrir brjósti.
    Þess vegna er það ljóst að hluti heimildabótanna sem lýtur að húsaleigustyrk fellur inn í húsaleigubæturnar og kemur þarna inn. Það getur vissulega þurft að endurskoða þá tölu sem þarna er, ef mörg sveitarfélög taka ekki upp húsaleigubætur en eru með aldraða sem þyrftu á styrk að halda. Sem betur fer er það þó svo í þeirri umræðu að Reykjavík, sem er væntanlega með mestan fjölda þeirra sem þurfa á aðstoð að halda, hefur ákveðið að taka upp húsaleigubætur og vil ég hér nota tækifærið til að lýsa ánægju minni með það.
    Eins og þingmaðurinn hefur væntanlega gert sér ljóst þá mundi ég ekki fyrir hönd Alþfl. geta svarað spurningu hans um eingreiðslur með einu jái. Til þess er það mál of flókið. Það er ekki sama hvernig verður unnið að þessu máli, hvernig bætur almannatrygginga verða reiknaðar út ef eingreiðslurnar verða teknar út. Það er ekki sama hvernig það er og sömuleiðis á eftir að skoða hvernig endurskoðun reglna á atvinnuleysisbótum verður. Þannig að það væri mjög gott ég ég gæti fyrir fram sagt: Nákvæmlega svona verður gagnvart atvinnulausum. Svo er ekki.