Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:02:08 (230)


[19:02]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin. Út af fyrir sig er ekki að ætlast til þess að hún svari því í einstökum atriðum hvernig á að fara að því að skerða tekjur atvinnulausra. En það er greinilega ætlunin að skerða tekjur atvinnulausra um 200 millj. og það er nú ekki beint að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur verð ég að segja, með fullri virðingu fyrir alþýðuflokksmönnum. Ég get svo sem alveg borið umhyggju fyrir þeim eins og öðrum, ef þingmaðurinn óskar eftir því.
    En það sem ég vildi sérstaklega vekja athygli hennar á er að á bls. 326 í fjárlagafrv., í 5 línu að ofan, er setning sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Áformað er að aftengja sjálfvirka hækkun bótagreiðslna lífeyristrygginga vegna ófyrirséðra launabreytinga og miða þær þess í stað við forsendur fjárlaga hverju sinni.``
    Hvað þýðir þetta? Á undanförnum árum hefur þetta verið þannig að þegar laun hafa hækkað, t.d. um 10% eða 5%, þá hefur elli- og örorkulífeyrir hækkað líka um 5% eða 10% eða hvað það nú hefur verið. Þannig hefur það verið um árabil, alveg frá því að Eggert G. Þorsteinsson knúði það í gegn í samningum við íhaldið árið 1971. Nú er hins vegar verið að segja sem svo: Þetta á ekki að fylgja launabreytingum, nei, heldur forsendum fjárlaga. Með öðrum orðum, því hversu mikið er ætlað til þessa í ríkissjóði við afgreiðslu fjárlaganna. Ef ekki er ætlað nóg til þessa á liðnum laun og verðlagsmál í fjmrn. þá fær gamla fólkið og öryrkjarnir minna en það hefur fengið til þessa. Þannig er verið að slíta í sundur ellilífeyri og laun í landinu og taka þá áhættu að kjör gamla fólksins og öryrkjanna sitji stórkostlega eftir þegar um það er að ræða að þróa launamálin áfram. Og ég spyr hv. þm.: Vill hún breyta lögum þannig að þessi tengsl launa og ellilífeyris verði slitin? Svo einfalt er málið.