Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:06:55 (232)


[19:06]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að ef Alþfl. hefur keypt, eins og það er stundum kallað, niðurstöðu fjárlagafrv. á þeim forsendum sem þingmaðurinn rakti hér áðan, þá misskilur hún lóðrétt allt málið. Vegna þess, hv. þm., að hér er ekki bara verið að tala um eingreiðslurnar. Það er annað mál. Eingreiðslurnar eru samkvæmt samningum sem gerðir voru og þær hafa verið í gangi með tilteknum hætti á þessu ári, m.a. samkvæmt fjáraukalagafrv. sem hér liggur fyrir og allt í lagi með það. En ekki er gert ráð fyrir því bara að höggva frá hugsanlegar eingreiðslur, heldur er verið að tala um að höggva frá elli- og örorkulífeyri þær breytingar sem verða á hinum almennu launakjörum í landinu burt séð frá einhverjum eingreiðslum. Það er aukaatriði í þessu sambandi, hv. þm. Ég óttast að hæstv. fjmrh. hafi ekki gert mönnum nægilega skýra grein fyrir því hvað er á ferðinni og a.m.k. er niðurstaða mín sú eftir að hafa hlýtt á skýringar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að eftir sé að samþykkja þessar undirstöður fjárlagafrv. upp á svona hálfan milljarð eða svo þegar þetta er allt skoðað. Það er náttúrlega athyglisvert, hæstv. forseti.