Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 19:19:08 (234)


[19:19]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði eitthvað á þá leið að málflutningur minn fyrr í dag væri ekki svaraverður vegna þess að ég hélt því fram að Framsfl. vildi hækka verð á matvælum í landinu með því að taka upp að nýju matarskatt. Ég hlýt að spyrja hv. þm. að því hvort það sé rétt skilið hjá mér að Framsfl. sé klofinn í afstöðu sinni til þessa máls vegna þess að hér var alveg skýr yfirlýsing frá

formanni flokksins í andsvari við ræðu mína fyrr í dag þar sem hann lýsti því yfir að Framsfl. mundi fara í eitt skattþrep í virðisaukaskatt þannig að maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort klofningur sé kominn upp í Framsfl.
    Síðan kom hv. þm. inn á það að ég hefði sagt að fólk neyddist oft til þess að bjarga sér með skattsvikum. Þetta er alveg hárrétt. Ég sagði þetta og ég stend við það. Það er deginum ljósara að svona er þetta. Og ég fór yfir það hvers vegna það er. Það er vegna þess að skattar í landinu eru allt of háir og fólk lifir hreinlega ekki af þeim kjörum sem það hefur í dag. Hins vegar er öllum ljóst að það er alveg sama hvaða kerfi við setjum upp í skattamálum. Auðvitað verða alltaf til skattsvikarar, þeir verða alltaf til. En það breytir því ekki að staða margra er þannig í dag að þeir lifa engan veginn af þeim kjörum sem þeim er boðið upp á. Þess vegna segi ég það að margir eru neyddir til þessara hluta vegna þess að fólk er að brauðfæða börn sín, koma þeim á legg og það gerir það sem það þarf til þess ef kerfið er jafnslæmt og það virðist vera gagnvart þessum hópi fólks.