Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:36:13 (241)


[20:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur sem kemur fram hjá hv. þm. að ég hafi gefið yfirlýsingu um vaxtahækkun. Það sem ég sagði í dag við fjölmiðla, aðallega þó sjónvarpið, var að búast mætti við vaxtahækkunum á markaðnum á næstunni vegna þess að vaxtastigið á verðbréfamarkaðnum íslenska er orðið talsvert miklu lægra en annars staðar. Það sést til að mynda á því að í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð eru vextir talsvert hærri á skammtímaskuldbindingum. Ég veit að hv. þm. á mjög erfitt með að venjast þeirri tilhugsun að vextir verði til á markaði en það er ekki svo að fjmrh. gefi yfirlýsingu um það hvað gerist á þessum markaði heldur var sá sem hér stendur einungis að segja að það væri eðlilegt að búast mætti við þessari vaxtahækkun. Vona ég að það skýri þetta mál. Þegar talað er um lága vexti og háa vexti þá er það afstætt og þegar við höfum verið að tala um lága vexti þá erum við ekki að tala um að vextirnir séu nákvæmlega stöðugir, þeir færast auðvitað til og eitt af því sem hefur áhrif á vaxtastigið hér er vaxtastig í nærliggjandi löndum.
    Mér þykir sjálfsagt, virðulegur forseti, að við tækifæri ræði menn um vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar, ég er tilbúinn til þess. Að lokum vil ég geta þess, vegna þess að minnst var á að hér væru engir ráðherrar, að hæstv. umhvrh. var að ganga í salinn og ég veit að hann gegnir fleiri embættum en einu nú um stundir.