Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:41:06 (245)


[20:41]
     Guðmundur Bjarnason (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég tel ósk hv. 8. þm. Reykn. um frestun á umræðunni vera mjög eðlilega. Ég gat um það í ræðu minni í dag að ég hefði þóst heyra það í fréttum Ríkisútvarpsins í morgun að það væri í umræðu og taldar allar líkur á því að vextir mundu frekar hækka en lækka eins og þó er boðað í greinargerð þessa frv. sem hefur verið til umræðu hér í allan dag. En þegar hæstv. fjmrh. hefur síðan í kvöldfréttum sjónvarps staðfest að það sé raunin þá finnst mér eðlilegt að okkur, sem höfum verið að taka þátt í þessari umræðu, gefist frestur til að skoða málin í þessu nýja ljósi og halda umræðunni áfram að því loknu. Það mundi geta gerst á morgun.
    Annað, sem kom fram líka hjá hv. 8. þm. Reykn. sem bað um frestun á umræðunni, var að einstakir fagráðherrar hafa lítið verið viðstaddir umræður í dag. Ég hóf ræðu mína í dag á því einnig að lýsa yfir óánægju minni með það að þeir sæju sér ekki fært að sitja yfir umræðunni um fjárlagafrv. sem er eitt af þýðingarmestu og mikilvægustu frv. ríkisstjórnar á hverjum tíma.
    Mig langar að lesa máli mínu til stuðnings, hæstv. forseti, eina málsgrein úr greinargerð fjárlagafrv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Á sviði ríkisfjármála hefur aðhald í rekstri verið hert og ábyrgð stjórnenda aukin. Sjálf fjárlagagerðin er markvissari og ábyrgð einstakra ráðherra og ráðuneyta meiri en áður.``
    Ábyrgð einstakra ráðherra er náttúrlega alveg sérstaklega merkilegt orðalag í þessu tilviki og samhengi umræðunnar að undanförnu.
    ( Forseti (VS) : Forseta þykir hv. þm. kominn lant út fyrir umræðuefnið fundarstjórn forseta.)
    Nei, virðulegur forseti. Þingmaður er að reyna að rökstyðja mál sitt fyrir beiðni um að það sé nauðsynlegt að aðrir ráðherrar en hæstv. fjmrh., sem hefur með þessu orðalagi hér framselt hluta af valdi sínu til einstakra fagráðherra, séu viðstaddir þessa umræðu. Það var mín ósk, virðulegur forseti. ( SvG: Þetta eru einstakir ráðherrar.) Já, það var vitað mál að þetta eru mjög einstakir ráðherrar. En það væri æskilegt að þeir væru viðstaddir umræðuna. Geti þeir það ekki nú þá finnst mér eðlileg sú ósk sem fram hefur komið að umræðu sé frestað til morguns.