Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 20:44:41 (247)


[20:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Fjmrh. hefur í kvöld boðað alþjóð vaxtahækkun. Það voru alveg skýr ummæli í viðtali við ríkissjónvarpið í kvöld. Þau ummæli ganga þvert á alla þá stefnumótun sem fjárlagafrv. er byggt á. Við höfum verið að gagnrýna hæstv. ríkisstjórn fyrir að vaxtalækkunarloforð hennar mundu ekki standast. Fjmrh. svaraði engu um það í þingsalnum í dag en kaus að fara í fjölmiðla og gefa yfirlýsingu gagnstæða því sem hann hefur sagt hér í dag. Hæstv. fjmrh. getur svo reynt að koma aftur inn í þingsalinn og reynt að draga í land og segja að hann hafi verið að tala um vexti á markaði. Auðvitað var hann að tala um vextina sem munu gilda í þeim útboðum sem hann sjálfur stendur fyrir. Það var alveg ljóst í viðtalinu. Þess vegna var hæstv. fjmrh. að boða það að ríkið yrði að sætta sig við hærri vexti á skammtímamarkaði fyrir sín bréf, það er alveg ljóst. Það þýðir á mæltu máli vaxtahækkun. Og ég segi við virðulegan forseta: Það er gjörsamlega útilokað að halda þessari umræðu áfram, sérstaklega í ljósi þess að fjmrh. er núna að reyna að halda einhverju öðru fram, nema þingheimur fái tækifæri til að skoða rækilega þessa vaxtahækkunaryfirlýsingu ráðherrans utan þings. Við höfum tækifæri til að ræða við Seðlabankann í fyrramálið og afla þeirra gagna sem við þurfum til að geta haldið þessari umræðu áfram.
    Ég vona að hæstv. forseti geri sér grein fyrir því að eftir allt sem hefur verið sagt hér á undanförnum mánuðum þá er vaxtahækkunaryfirlýsing fjmrh. stórtíðindi. Og að halda að hægt sé að ræða fjárlagafrv. áfram eins og ekkert hafi í skorist er náttúrlega fullkomlega út í hött. Það er einfaldlega ekki hægt. Þegar það bætist svo við að enginn af þeim fagráðherrum sem hér hafa sérstaklega verið gagnrýndir á síðustu klukkustundum þessarar umræðu er viðstaddir enn sem komið er þá setur það líka umræðunni þannig skorður að það er ekki hægt að halda henni áfram.
    Nú hefur það verið upplýst að hæstv. heilbrrh. sé að koma til landsins í kvöld. Hv. þm. Svavar Gestsson og fleiri hv. þm., m.a. hv. þm. Guðmundur Bjarnason, hafa rakið hér mjög rækilega hve hæpnar yfirlýsingarnar í fjárlagafrv. varðandi heilbr.- og trmrn. eru. Fjmrh. gat ekki svarað þeim athugasemdum fyrr í dag. Vilji hæstv. forseti láta taka umræðu um fjárlög íslenska ríkisins alvarlega hér á Alþingi en líti ekki bara á þetta sem frekar leiðinlegan málfund þá er alveg ljóst að hæstv. forseta ber að skapa þingmönnum þau skilyrði að það sé hægt í alvöru að ræða fjárlagafrv. íslenska ríkisins á Alþingi. Og ég ítreka formleg tilmæli Alþb. um að þessari umræðu sé frestað til morguns.