Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 21:14:38 (255)


[21:14]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé alveg rétt athugasemd hjá hæstv. forseta að þingmönnum hafi verið það ljóst að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur verið fjarri hér í dag. En ástæðan til þess að eftirspurn er eftir ráðherranum núna en var kannski ekki fyrr í dag er e.t.v. sú að hér hafa komið fram upplýsingar og spurningar sem menn hafa kannski ekki áttað sig á að væru í stöðunni núna síðdegis í dag og í kvöld. Þess vegna finnst mér satt að segja spurning hvort ekki er hægt að finna flöt á því að hinkra með umræðuna þangað til á morgun og reyna að finna því einhvern þann búning að allir haldi andlitinu. Auðvitað er vandasamt fyrir hæstv. forseta sem er þingmaður stjórnarandstöðunnar að taka af skarið í máli af þessum toga þar sem hæstv. fjmrh. leggur sjálfsagt á það ofurkapp að umræðan haldi áfram. Ég vildi beina því til hæstv. forseta og hæstv. fjmrh. að íhuga mjög vandlega það sem hér hefur gerst. Það er það að fulltrúar allra þingflokka stjórnarandstöðunnar hafa óskað eftir því að um málið verði fjallað frekar á morgun þegar ráðherrarnir eru komnir. Ég spyr: Er þá ekki hægt að semja um það hvernig umræðunni verður háttað á morgun og hvenær og hvernig henni verður lokið? Er það ekki mikið skynsamlegra en vera að þrjóskast við núna fram eftir kvöldi, sem ég er þó ekki að segja að hæstv. forseti sé að gera, en er ekki skynsamlegra að við reynum að finna einhvern rólegan flöt á málinu og ljúkum þessu eins og sæmir góðum forsetum og þingmönnum. Ég held að við hljótum að finna flöt á því að hinkra með málið til morguns þannig að við getum spurt viðkomandi ráðherra og lokið umræðunni með reisn einhvern tíma dags á morgun.