Fjárlög 1995

6. fundur
Þriðjudaginn 11. október 1994, kl. 21:16:45 (256)


[21:16]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég er líklega annar maður á mælendaskrá í þessari umræðu og ég verð að taka undir þær óskir sem hafa komið fram að okkur verði ekki gert eða ætlað að halda ræður okkar við þær aðstæður að til að mynda þeir ráðherrar sem við viljum eiga orðastað við séu á leið til landsins með flugvél, muni lenda um kl. 10 og svo fer það eftir atvikum hvenær þeir verða komnir til bæjarins og hvort þeir verða þá í stuði til að koma hingað og standa fyrir máli sínu. Mér er bara ekki nokkurt gagn að því að vita það að hæstv. heilbrrh. sé einhvers staðar í flugvél yfir Ingólfshöfða núna.
    Ég held að mjög vel rökstuddar beiðnir hafi komið hér fram um það að fresta þessari umræðu. Þær eru vel rökstuddar, hæstv. forseti. Það er ekki þannig að þetta sé einhver ástæðulaus kergja í okkur stjórnarandstæðingum. Hér hafa gerst atburðir í umræðunni og í fréttum í kvöld. Reyndar er það ekki bara fjmrh. einn heldur líka félmrh. sem hefur hækkað vexti í dag því að í kvöldfréttum kom að félmrh. hefði samþykkt að leggja ábyrgðargjald á húsbréfalán sem mun þýða sjálfkrafa hækkun á vöxtum húsbréfa þannig að þeir fari í yfir 5%. Það eru auðvitað heilmikil tíðindi að hæstv. félmrh. skuli gera þetta í andstöðu við stjórn Húsnæðisstofnunar.
    Þetta og margt fleira, hæstv. forseti, gefur alveg tilefni til þess að taka umræðuna upp á morgun við þær aðstæður að ráðherrarnir geti svarað spurningum. Ef það er þannig að menntmrh., félmrh., heilbrrh., samgrh. og jafnvel fleiri ráðherrar, sem hefur verið óskað eftir að væru viðstaddir, geta allir verið hér á morgun en ekki í kvöld þá verð ég að segja alveg eins og er að ég held að forseti hafi bara engin sanngirnisrök til þess að halda umræðunni áfram. Það er engin tímanauð sem rekur okkur til þess að ganga þannig til verka á fyrstu sólarhringum þinghaldsins. --- Ef ég leyfi mér að spyrja hæstv. forseta, er eitthvað óupplýst í þessu máli sem við vitum ekki? Af hvaða ástæðum er ekki unnt að verða við því að fresta umræðunni nú og halda henni áfram á morgun? Er þar eitthvað í veginum sem ekki hefur verið upplýst um? Ég óska þá eftir því að það komi fram. Er allt í uppnámi hjá hæstv. fjmrh. ef umræðunni lýkur ekki nákvæmlega núna í kvöld? Það eru mér alveg nýjar fréttir. Ég veit að hæstv. forseti hefur kynnt sér fjárlagafrv. og veit að sjálfur grundvöllur þess er akkúrat sá vaxtalækkunarboðskapur sem þar er á ferðinni. Ég bendi forseta til að mynda að líta á bls. 242. Þar kemur fyrir lækkun vaxta líklega sex sinnum í einni málsgrein, algert úrslitaatriði, lykilatriði er það kallað aftur og aftur og aftur. Síðan fáum við þær fréttir að tveir ráðherrar hafi í dag boðað eða staðið fyrir vaxtahækkununum. Ég held, hæstv. forseti, að næg rök og meira en það séu fyrir utan alla sanngirni sem mælir með því að forseti verði við þessum skynsamlegu óskum. Ég spyr hæstv. forseta, ef ég óska eftir því að fresta ræðu minni þangað til tilteknir ráðherrar eru komnir hér á eftir ætlar þá forseti að neita mér um þá bón?