Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:44:08 (271)


[14:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort þetta hefur áhrif á sölu annarra spariskírteina eða annarra skírteina. Ég skal reyna að skýra þetta út. Þetta er ekki mjög flókið en ég bið hv. þm. um að hlusta samt vel.
    Munurinn á bréfunum er sá að önnur bréfin eru verðtryggð. 5% nafnvextir, verðtryggð bréf. Sá sem kaupir slík bréf tekur því ekki áhættuna af því hver verðbólgan verður. Hún er bætt upp í verðtryggingunni. Það eru spariskírteini ríkissjóðs. Hins vegar eru nýju bréfin, ,,beljubréfin``, sem hv. þm. var að tala um hér áðan, ECU-bréfin, með 8% nafnvöxtum, enginn veit um ávöxtunarkröfuna en það er vegna þess að þau eru ekki verðtryggð og það er verðbólga í þeim löndum sem ECU-viðmiðunin tekur til. Nú veit hv. þm. áreiðanlega að stundum er verðbólga. Meira að segja á Íslandi hefur verið verðbólga, ég veit að sumir menn eru búnir að gleyma því að það var verðbólga hér á árum áður. Verðbólgan bætist upp með verðtryggingu ef bréf eru verðtryggð en ekki af óverðtryggðum bréfum. Þess vegna er það ekkert skrýtið að það sé þarna 3% munur af því að verðbólga getur verið milli 2 og 3% og oft er hún u.þ.b. 3%.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. skilur þetta en ég hef alla vega gert mitt besta til að skýra þetta út.