Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:46:29 (273)


[14:46]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það eru örfáar spurningar sem ég hef fengið frá ýmsum þingmönnum, bæði í dag og fyrr við þessar umræður, sem ég vildi gjarnan svara.
    Í fyrsta lagi var spurt um hversu stórum hluta af umráðafé Framkvæmdasjóðs aldraðra ætti að verja í rekstur. Þetta kemur fram á yfirliti um Framkvæmdasjóð aldraðra í fjárlagafrv. þannig að menn geta flett upp á því sjálfir. Það er heimilt samkvæmt lögum að verja allt að 55% af ráðstöfunarfé sjóðsins til þess að greiða rekstur stofnana samkvæmt ákvörðunum Alþingis. Ef farið væri bókstaflega eftir því væri um það að ræða að í rekstrarhluta sjóðsins væru 264 millj. teknar til þeirra hluta af að mig minnir 480 millj. kr. heildarráðstöfunarfé. Það er nokkru lægra en lögin heimila. Ef farið væri út í ystu æsar samkvæmt heimildum laganna þá mætti verja 264 millj. til þessara þarfa en það er eins og ég áður sagði 251 millj. sem verja á til þessara þarfa samkvæmt fjárlagafrv. Þetta ákvæði átti við þrjú ár, árin 1993, 1994 og 1995.
    Þá var spurt hvað farið yrði mikið fram úr fjárlögum vegna málefna heilbr.- og trmrn. á árinu 1994. Nýlega hefur verið lagt fram á hinu háa Alþingi frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1994, það er 66. mál á þskj. 66. Þar kemur þetta nákvæmlega fram vegna þess að þar leggur ríkisstjórnin fram við Alþingi tillögur um fjáraukalög eins og málin standa þegar þau lög voru flutt. Þar kemur fram að lagt er til að fjárheimild heilbr.- og trmrn. verði aukin um 1.499 millj. á árinu. Þar af eru um 300 millj. vegna ákvörðunar ríkisstjórnar um að greiða út sömu eingreiðslu og á liðnu ári en fyrir því var ekki áætlað í fjárlögum. Þá er einnig gert ráð fyrir því að aukinn kostnaður, m.a. vegna lyfja verði upp á 300 millj. sem stafaði m.a. af því að ákvæði lyfjalaga um verðlagningu tóku ekki gildi á árinu eins og gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Þá hefur kostnaður vegna nýrra lyfja sem hafa komið á markaðinn á þessu ári verið mun meiri en menn gerðu ráð fyrir þannig að hann hefur etið upp þann sparnað sem hefur orðið eins og vegna magasárslyfja og fleira.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að það þurfi að auka útgjöld vegna sérfræðilæknishjálpar um 300 millj. kr. Ástæðan fyrir því er sú að það hafa ekki náðst nýir samningar við sérfræðilækna. Það er gert ráð fyrir því að halda þá áfram að vinna eftir gömlu samningunum þangað til nýir samningar verða gerðir. Það segir sig auðvitað sjálft að á meðan svo er að ekki fást nýir samningar þá er ekki hægt að gera ráð fyrir því að tiltekinn árangur fáist af samningi við sérfræðilækna. Þá vil ég einnig vekja athygli á því, sem er umhugsunarvert, að þessir samningar eru svo opnir að á liðnu ári var stofnað nýtt fyrirtæki sem heitir Myndgreining hf. Ég gæti trúað að tækja- og vélabúnaður þess fyrirtækis, sem þurfti að kaupa, m.a. mjög fullkomin röntgentæki og sneiðmyndatæki, hafi kostað eitthvað um eða yfir 100 millj. kr. Þetta fyrirtæki getur samkvæmt samningi við sérfræðilækna gengið beint inn í þjónustu Tryggingastofnunar ríkisins og hefur gert það með sambærilegum hætti og sérfræðilæknir sem vill opna lækningastofu og hefja viðskipti við Tryggingastofnun ríkisins þarf aðeins að senda Tryggingastofnun ríkisins tilkynningu um að lækningastofa hafi verið opnuð og þar með öðlast viðkomandi réttindi til að skrifa út reikninga fyrir almannafé. Þetta hefur gerst með Myndgreiningu hf. og hefur valdið því að kostnaður hefur hækkað allverulega í sambandi við þá þjónustu sem þar er veitt. Ríkissjóður þarf auðvitað að greiða það í gegnum sjúkratryggingar. Á sama tíma hefur dregið úr sambærilegri þjónustu á spítölunum sem reknir eru fyrir ríkisfé, þ.e. Borgarspítala og Landakotsspítala, þannig að þar verður umtalsverður skortur á sértekjum sem ríkið þarf líka að borga. Þannig að þetta fyrirbæri kostar ríkissjóð tvöfalt, þ.e. í fyrsta lagi viðbótarútgjöld vegna hinnar nýju þjónustu viðskiptaaðila sem ríkisvaldið ræður engu um hvort það tekur í þjónustu sína eða ekki og svo hins vegar að standa undir tekjutapinu sem af því hlýst á röntgendeildum spítala sem ríkið rekur. Ég held að það komi því engum á óvart að á meðan svona kerfi er í gildi þá sé ekki líklegt að hægt sé að ná umtalsverðum árangri í lækkun kostnaðar við þessa þjónustu.
    Hv. 11. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, spurðist fyrir um hvernig menn ætluðu sér að reyna að ná þessum kostnaði niður á næsta ári fyrst það liggur fyrir að mánuðum saman hefur ekki verið hægt að semja við sérfræðilækna um nýja kjarasamninga. Því er til að svara að ég hef ákveðið og nú er í undirbúningi að taka upp tilvísanakerfi sem heilbrrh. hefur fullar heimildir skv. lögum til að beita og þarf aðeins að taka ákvörðun um hvernig beitt skuli. Ég reikna með að það kerfi muni geta komist til framkvæmda um næstkomandi áramót. Það á hins vegar eftir að sjá hversu miklum árangri það kerfi kann að ná, ekki bara í sparnaði heldur til að greiða fyrir eðlilega þjónustu í þessu kerfi því það segir sig auðvitað sjálft að þetta kerfi eins og öll önnur þarf á einhvers konar samræmingu og aðhaldi að halda, ekki bara til þess að draga úr kostnaði heldur til að tryggja að ávallt sé veitt sú hagkvæmasta þjónusta sem veita ber í hverju tilviki fyrir sig.
    Þá var spurt hvort ætlunin væri að breyta almannatryggingalögum. Svarið við því er nei, það er ekki ætlunin. Það er hins vegar ekki áætlað fyrir eingreiðslum í frv. til fjárlaga. Þær tengjast að sjálfsögðu kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, hvort samið verði um slíka hluti í kjarasamningum aðila sem hefjast væntanlega nú í haust er ekki ljóst nú. Það verður þá að sjá til og ráðast í afgreiðslu Alþingis á fjárlögum hvort ástæða er til ef samningar nást á þessu hausti að gera ráð fyrir áframhaldandi eingreiðslum af þessu tagi á næsta ári.
    Svarið við spurningunni um það hvort ætlunin sé að breyta almannatryggingalögunum og draga úr því eða torvelda það að launakjör og kjör lífeyrisþega fylgist að, svarið er nei, það er ekki tilgangurinn að

gera það.
    Það er spurt um sparnað í lyfjum. Ég hef gert nokkra grein fyrir því af hverju hann náðist ekki á þessu ári eins og ráð var fyrir gert. Út af næsta ári er því til að svara að í þeirri rammafjárlagagerð sem hefur ríkt hér á Alþingi og hjá ríkisstjórn allt frá tíð hæstv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar sem fyrstur kom með þá aðferð í fjárlagagerð á fjármálaráðherraárum sínum þá er gengið út frá því þegar rammi er gerður að áætla útgjöld næsta árs að öllu óbreyttu á grundvelli útgjaldaspár yfirstandandi árs og líklegs vaxtar. Þannig er í ramma fjárlaganna vegna lyfjakostnaðar gengið út frá því að horft sé á lyfjakostnaðinn eins og hann verður í ár og bætt þar við líklegum útgjaldavexti á næsta ári sem var fyrir 1991 á milli 12 og 13% á hverju einasta ári en hefur verið mun minni síðan. Síðan eru sparnaðaráformin gerð út frá þeirri niðurstöðu, þ.e. út frá því hvað verða mundi ef ekkert yrði að gert. Það er út frá þeim grundvallarviðhorfum sem áformin eru reist.
    Þá er spurt hvort ætlunin sé að flytja frv. um að flýta gildistöku verðlagsákvæða lyfjalaga. Svarið við því er jákvætt. Það er ein af forsendunum fyrir því að áform ríkisstjórnarinnar um lækkun lyfjakostnaðar á næsta ári nái fram að ganga. Verði það frv. ekki afgreitt þá segir það sig sjálft að þessi sparnaðaráform varðandi lyfjakostnað á næsta ári verða fallin. Alveg eins og þau féllu um sjálf sig á yfirstandandi ári þegar Alþingi samþykkti ekki gildistöku lyfjalaganna eins og fyrrv. heilbrrh. hafði gengið út frá og eins og gengið hafði verið út frá við fjárlagagerðina fyrir árið 1994.
    Ég er búinn að svara spurningunni um hvernig hugsað sé að reyna að ná sparnaði fram í sérfræðilækningum. Það er sem sé með því að taka upp tilvísanakerfi sem er í undirbúningi í ráðuneytinu og stefnt að því að taki gildi eins fljótt og við verður komið, líklega um næstu áramót.
    Þá er einnig spurst fyrir um hvernig standi á því að lækkaðar eru heimildarbætur í almannatryggingakerfinu með því að færa húsaleigubætur út úr því kerfi og yfir í greiðslu húsaleigubóta í félmrn. Því er til að svara að þetta var samkomulag fyrrv. heilbrrh. og fyrrv. félmrh. að svona skyldi þetta gert. Það var samkomulag þessara aðila að til þess að styrkja og auka möguleika til húsaleigubótagreiðslna í hinu nýja húsaleigubótakerfi þá féllst heilbrrh. þáv. á, ef orða má það svo, að leggja til það fjármagn sem farið hefði til húsaleigubóta í heimildarbótakerfi almannatrygginga og flytja það til félmrn. sem húsaleigubótagreiðslur í gegnum það ráðuneyti enda gert ráð fyrir að húsaleigubætur sem yrðu greiddar yrðu eftirleiðis greiddar í gegnum hið nýja kerfi húsaleigubóta en ekki í gegnum heimildarbótakerfi almannatrygginga. ( KÁ: Það eru ekki nema 50 millj. kr.) Þannig að þarna var um að ræða samkomulag á milli fyrrv. félmrh. og fyrrv. heilbrrh. og fjmrh. Þetta er samkomulag sem þá var gert og er staðfest í þessu fjárlagafrv.
    Þetta var viðvíkjandi því hvort verið væri að flytja á milli bótafjárhæðir. Auðvitað er í áformum fjárlagafrv. um lækkun heimildabóta gert ráð fyrir áhrifum til lækkunar af öðrum aðgerðum en bara þessum. Þetta var spurningin þar sem spurt var hvort þarna væri um að ræða flutning á milli og það er svo. Samkvæmt því samkomulagi sem þá var gert er ekki gert ráð fyrir að húsaleigubætur verði greiddar út úr heimildarbótakerfi almannatrygginga. Það var samkomulagið sem gert var milli umræddra þriggja ráðherra.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem til mín var beint og það er sjálfsagt að veita greiðari upplýsingar ef ég get.