Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 14:59:57 (274)


[14:59]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. heilbr.- og trmrn. hefur nú svarað flestum þeirra spurninga sem til hans var beint og í þeim hafa fengist skýr og ótvíræð svör. Þó eru nokkrar athugasemdir sem ég vil gera. Í fyrsta lagi varðandi sérfræðilæknishjálpina, tilvísanakerfið eins og hæstv. ráðherra gerir ráð fyrir að tekið verði upp. Það er alveg ljóst að um leið og tilvísanakerfið verður tekið upp þá munu útgjöld heilsugæslunnar aukast á sama tíma, það er ekki nokkur einasti vafi. Þá kemur það dálítið á óvart að heilsugæslan skuli vera lækkuð um 50 millj. kr. á milli ára á sama tíma og menn ætlast til aukinnar þjónustu af heilsugæslunni.
    Það á ekki að breyta almannatryggingalögum, ég fagna því. Ég spyr hins vegar hæstv. ráðherra hvort það sé þá ekki óraunsætt að ætla að þessi fjárlög standist þegar það er alveg ljóst að kjarasamningar eru fram undan, þar verður samið um ákveðnar launahækkanir og alltaf hefur það gerst að í kjölfar slíkra launahækkana hafa eingreiðslur komið. Ég spyr: Hefur verið rætt við verkalýðshreyfinguna um þá hluti?
    Í þriðja lagi segir hæstv.- og trmrh. að það eigi að flytja hér frv. sem geri ráð fyrir því að gildi taki þeir kaflar lyfjalaganna sem menn náðu samkomulagi um milli stjórnar og stjórnarandstöðu hér á þinginu á sl. vori um að þessir kaflar yrðu ekki í gildi þar til 1. nóv. 1995. Ég spyr: Er það þá meiningin, hæstv.- og trmrh., að brjóta þetta samkomulag sem varð milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar og var forsenda fyrir því í raun að þetta frv. fékkst samþykkt hér á þinginu?
    Í fjórða lagi er alveg ljóst að lækkunin á þessum lið, Lífeyristryggingar, 200 millj. sem ætlaðar eru út af húsaleigubótunum og öðru slíku er langt umfram það sem þeir fá sem eru í leiguhúsnæði og njóta styrkjar frá Tryggingastofnun vegna húsaleigubóta sem gæti verið í kringum 50 millj. kr. Hvar er þá og hvernig á að ná öðrum sparnaði í þessum 250 millj. kr.?