Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:02:34 (275)


[15:02]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög algengt þegar gengið er frá fjárlögum, eða fjárlagafrv. á þeim tíma þegar kjarasamningar eru lausir og enginn hefur hugmynd um hvernig viðræðum aðila vinnumarkaðarins muni ljúka þá sé ekki gert ráð fyrir því í áætlun fjárlaga að það sé verið með einum eða öðrum hætti að geta sér til um það hvernig þeirri kjarasamningalotu muni ljúka. Það er reglan, hitt er undantekning, að menn geri í fjárlögum ráð fyrir því að kauphækkun skili einhverjum vissum viðbótarútgjöldum fyrir ríkissjóð þegar samningaviðræður eru ekki einu sinni hafnar. Það er ekkert óeðlilegt við það að ekki sé gert ráð fyrir hlutum eins og eingreiðslum sem tengjast kjarasamningum á tímum þegar kjarasamningar eru lausir og viðræður aðila eru ekki einu sinni hafnar. Slíkt er venja en ekki undantekning.
    Hv. þm. spurði hvort ætlunin væri að brjóta samkomulag sem gert hefði verið í þinginu um afgreiðslu lyfjafrv. Það samkomulag var nú fyrst og fremst um þann þátt sem sneri að frjálsri lyfsölu, þ.e. ráðherra hætti að veita heimildir með þeim hætti sem hann hefur gert hingað til, hitt var minna atriði. En það er engin spurning í mínum huga um að ég mun leggja fram frv. um slíkt, þ.e. að gildistöku verðlagsákvæða lyfjalaganna verði flýtt. Verði það ekki samþykkt á Alþingi sem vel getur verið, ég vil engu spá, þá ná ekki þær aðgerðir fram að ganga sem reiknað er með að leiði til sparnaðar í lyfjakostnaði á næsta ári. Þetta vildi ég taka mjög skýrt fram.
    Um húsaleigubótaþáttinn í heimildarbótunum er það að segja að heimildarbæturnar hafa vaxið miklu meira og hraðar en menn gerðu ráð fyrir. Það liggur ekki enn fyrir hve húsaleiguþátturinn í þeim heimildarbótum er mikill en við skulum sjá hver hann verður þegar upp verður staðið. Ég ítreka að þessar bætur hafa vaxið miklu meira en menn gerðu ráð fyrir.