Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:07:01 (278)


[15:07]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi lyfjamálið sem hér var rætt núna þá er það auðvitað alveg ljóst að sá þáttur sem hv. þm. Finnur Ingólfsson spurði um var samkomulagshluti við afgreiðslu málsins sl. vor. Ég vona að menn muni hvernig þetta gekk fyrir sig með það mál, það var allt vitlaust í þinginu dögum saman. Þetta mál var úrslitamál þannig að þegar afgreiðslu þess lauk var fyrst hægt að ljúka þinginu. Það er því satt að segja dálítið hart burt séð frá efni málsins að segja að menn skuli núna örfáum mánuðum seinna koma og segja: Þetta samkomulag skiptir engu máli, skítt með það. Við högum okkur eins og það hafi aldrei verið gert. Spurningin fyrir stjórnarandstöðuna hlýtur þá að vera sú: Á hún ekki að hætta að reyna að gera samkomulag við ríkisstjórnina um afgreiðslu mála? Ég fullyrði a.m.k. að þetta háttalag greiðir ekki fyrir vinnubrögðum á yfirstandandi þingi.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, ætla ég að vekja athygli hæstv. ráðherra á því að í grg. fjárlagafrv. stendur: ,,Áformað er að aftengja sjálfvirka hækkun bótagreiðslna lífeyristrygginga vegna ófyrirséðra launabreytinga og miða þær í þess stað við forsendur fjárlaga hverju sinni.`` Í greinargerðinni stendur enn fremur að meðal þeirra frumvarpa sem verði flutt sem stjfrv. á þessu þingi á næstu dögum sé frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar til endurskoðunar á verðlags- og launatengingum bótafjárhæða og framlaga fyrir veitta þjónustu. Með öðrum orðum stendur að það eigi að höggva á þessi tengsl. Hæstv.

ráðherra sagði: Lögunum verður ekki breytt. Þar með afturkallar hann allt það sem hér stendur í þessum texta. Ég orðaði það þannig í gær að fjárlagafrv. væri gatasigti. Er það enn þá meira gatasigti en hægt er að lesa út úr þessu? Ætlar hann að afturkalla yfirlýsingar fjárlagafrv. að því er þetta atriði varðar? Er ekki orð að marka það sem fjmrh. segir að því er varðar heilbr.- og trmrn.?