Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:09:41 (279)


[15:09]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. ( Gripið fram í: Eru þetta gleraugu fjmrh.?) Að sjálfsögðu verðum við að reyna að samnýta gleraugu í þessari ríkisstjórn eins og menn reyna að draga úr öðrum kostnaði.
    Virðulegi forseti. Í frv. eru bætur almannatrygginga miðaðar við það launastig sem nú er. Á fjárlagalið 989 Launa- og verðlagsmál í fjmrn. eru 590 millj. kr. til að mæta áætluðum hækkunum á næsta ári. Þetta er skýrt á bls. 286 í frv., en þar segir með leyfi forseta:
    ,,Hvað breytingar á bótum almannatrygginga varðar þá er miðað við að m.a. sé rúm til að mæta hækkun með bótagreiðslum sem svarar til orlofs- og desemberuppbóta lífeyristrygginga. Þær og aðrar hækkanir bóta eru ákvörðunaratriði stjórnvalda og tengjast m.a. fyrirhugaðri uppstokkun á heimildarbótum sem greint er frá í umfjöllun um bætur lífeyristrygginga hér á eftir. Einnig ráðast ákvarðanir um hækkun bóta að einhverju marki af almennum launa- og verðbreytingum í þjóðfélaginu.``
    Þetta er alveg skýrt og ég skal endurtaka það sem ég sagði áðan. Ekki er gert ráð fyrir því að flytja tillögu um breytingar á lögum um almannatryggingar til að rjúfa þessi tengsl.