Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:13:50 (282)


[15:13]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Mér þætti vænt um ef hæstv. samgrh. og landbrh. vildi vera við þessa umræðu þegar á hana líður. Hæstv. fjmrh. situr í sæti sínu og við hann þarf ég að tala nokkur orð.
    Það er merkilegt, hæstv. forseti, að núv. fjmrh. er einhver brattasti og kokhraustasti náungi sem þekkist. Hann þylur á hverju hausti ræðu sem verkar eins og öfugmælavísa um þær staðreyndir sem blasa við í þjóðfélaginu í heild. Enginn maður minnir mig jafnmikið á söguhetjuna ,,Palli var einn í heiminum`` eins og þessi hæstv. ráðherra. Svo vill nú til, hæstv. fjmrh., að hægt er að rekja aðgerðir núv. ríkisstjórnar í gegnum þingtíðindi og þá kemur í ljós að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur starfað fyrir minnihlutahóp í þjóðfélaginu. Hún hefur unnið í þágu stórgróðafyrirtækja, velt byrðunum af þeim yfir á herðar launþega. Meðan stórgróðafyrirtækin og atvinnulífið í heild hefur lækkað skuldir sínar hafa heimilin í landinu stóraukið skuldir sínar eða um 43% á tímabili þjóðarsáttar og starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Þangað hafa byrðirnar verið fluttar, hæstv. fjmrh., í tíð núv. ríkisstjórnar. Þetta er staðfest í Alþýðublaðinu á dögunum. En með leyfi forseta segir í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 6. október sl.:
    ,,Á fyrri helmingi yfirstandandi árs jukust skuldir heimilanna í landinu um 6%. Heildarskuldir heimilanna í júní voru 282 milljarðar kr. og lætur nærri að hver fjögurra manna fjölskylda hafi skuldað um 4,3 millj. í lok júnímánaðar. Til samanburðar var þessi fjárhæð 3 millj. í árslok 1990 . . . ``
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá voru skuldir hverrar fjögurra manna fjölskyldu á Íslandi um 3 millj. kr. en eru nú komnar í 4,3 og hafa hækkað um 43%. Þetta eru staðreyndir málsins. Þangað hefur hæstv. núv. fjmrh. flutt byrðarnar og svo er komið í þessu þjóðfélagi að menn sjá í gegnum þá glansmynd sem reynt er að blása upp af hæstv. ríkisstjórn. Þetta hefur gerst á tíma þjóðarsáttar á Íslandi. Þetta hefur gerst í verðbólguleysi á Íslandi, farið þveröfugt á við stórgróðafyrirtækin sem hafa á sama tíma samkvæmt upplýsingum Alþýðublaðsins lækkað skuldir sínar um 1%. Nú gerist það trekk í trekk, þing eftir þing að byrðarnar eru fluttar af fyrirtækjunum yfir á herðar fólksins og ekki með réttlátum hætti. Þar fer sá verst út úr hlutunum sem síst skyldi. Hæstv. fjmrh. ber þyngsta ábyrgð á þessari staðreynd.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. lagt fram síðasta fjárlagafrv. sitt og segja má eins og skáldið: Eigi er ein báran stök, ein er síðust og mest. Versta verkið blasir við þegar hann leggur fram sitt síðasta fjárlagafrv. Þá sjá menn skýrast í gegnum hugarfar þessa hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Besta við frv. er að það leynir engu. Ríkisstjórnin hikar ekki við að vega í sama knérunn og sem betur fer leynir því ekki þjóð sína neinu þegar hún leggur fram frv. Menn sjá það skýrt hvert hún er að fara og hverjir skulu bera baggana.
    Kosningafrv. flytur þeim tekjuháu og þeim sem eignirnar eiga þá miskunn að þeim skuli hlíft á kosningaári. Þar hafi verið mest þörfin að lina tökin. Þetta kemur fram í frv. hæstv. fjmrh. Boðskapur frv. er lækkun á skattbyrði hátekju- og eignafólks um hvorki meira né minna en 1,1 milljarð. En niðurskurðurinn fellur á þá liði sem síst skyldi, þ.e. á félags- og velferðarmálin. Sér hæstv. fjmrh. ekki að brýnasta verkefni dagsins er að styrkja hag meðaltekju- og láglaunafólks sem er að tapa eignum sínum, sem hefur á tímabili þessarar ríkisstjórnar verið að auka skuldir sínar um 43% vegna þess að byrðarnar eru of þungar og launin eru of lág. Tekjuskiptingin er mikil. Þetta er óásættanleg niðurstaða sem blasir við. Þetta sést best á því að 25% húsbréfanna liggja í vanskilum. Það er vegna þess að fólkið hefur ekki lengur peninga til þess að standa í skilum.
    Hér væri hægt að halda langa ræðu um skattastefnu ríkisstjórnarinnar en það verður að bíða betri tíma. Að afnema hátekjuskattinn þýðir í tekjutapi 400 millj. fyrir ríkið. Hver var að segja að þessi 5% hátekjuskattur væri ranglátur? Jú, hv. þm. Guðrún Helgadóttir lét fagurgala fjmrh. plata sig í gær. Það minnti mig á ævintýrið um úlfinn og Rauðhettu, það er auðvelt að plata saklausar stelpur jafnvel þótt þær séu komnar til ára sinna. Núverandi hátekjuskattur er fyrst og fremst lagður á verulega háar tekjur. Hjón sem hafa 4,8 millj. á ári eða 400 þús. á mánuði hafa sloppið við hátekjuskattinn. Einstaklingar með 200 þús. á mánuði og þar fyrir neðan hafa sloppið við hátekjuskattinn. Auðvitað á við þær ójöfnu aðstæður og óásættanlegan launamismun að viðhalda hátekjuskattinum. Þegar forstjórar og fyrirmenn innbyrða árslaun verkamanns á mánuði verður að jafna bilið í gegnum skatta.
    Nú gerist það að hátekjumenn beita fyrir sig þrýstihópum og segja: Það er ósanngjarnt að sjómenn og ungt fólk komið úr námi beri þennan skatt. Tekjur eru 200 þús., tekjur hjóna yfir 4,8 millj. fá ekki á sig hátekjuskatt. Þetta eru staðreyndir sem eigi að síður blasa við. Það eru frábær lífskjör sem þessir aðilar búa við og þótt einhverjir skipstjórar á aflaskipum og nýútsprungnir læknar í feitu brauði falli inn þennan hóp finnst mér sanngjarnt að honum sé viðhaldið áfram. Hér er ekki um almenna sjómenn að ræða eða ungt fólk komið úr námi. Það er fyrirsláttur einn. Þess vegna hlýtur það að vera krafa til þessarar ríkisstjórnar að hún nái í þessar 400 millj. í hátekjuskatti við þær aðstæður sem nú blasa við í þjóðfélaginu. Það er annar hópur sem hér hefur verið nefndur sem þarf áheyrn frekar en þessi hátekju- og eignahópur í þjóðfélaginu, hæstv. fjmrh.
    Aftur á móti finnst mér, og um það höfum við hv. þm. Finnur Ingólfsson lagt fram frv. hér á Alþingi, að hjón og sambúðarfólk fái að nýta að fullu sinn persónuafslátt til frádráttar. Það skilaði sér til fólks þar sem maki er heimavinnandi eða í námi og dragi úr atvinnuleysi í landinu. Þessi aðgerð sem við höfum lagt til mundi kosta í tekjutapi hjá ríkissjóði 500--600 millj. en hátekjuskatturinn gefur 400--500 millj. Ég vil biðja hv. alþm. að íhuga það hvort ekki sé sanngjarnari leið að hjón og sambúðarfólk fái að nýta þennan persónuafslátt að fullu þó þau velji sér þann lífsstíl að vera heima, ala upp sín börn eða vera í námi að persónuafslátturinn sé ekki skertur um 20%. Þetta eru svipaðar upphæðir.
    Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á atvinnuleysinu. Líklega er það á sjöunda þúsund manns sem nú er án atvinnu. Megnið af þessu fólki er fólk sem vill vinna en fær ekki vinnu og himinninn er að hrynja ofan á þetta fólk í dag. Það á verulega erfitt. En eigi að síður staðfestir síðasta fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. að hann ætlar að festa atvinnuleysið í sessi. Fjárveitingar til framkvæmda eru skornar niður um hvorki meira né minna en 3,3 milljarða eða um 25% miðað við framkvæmdir þessa árs. Kjarasamningar fara í hönd. Svipa atvinnuleysisins lækkar róminn kannski í Dagsbrún og öðrum slíkum sem berjast fyrir því að fyrirtækin, sem hafa verið að lækka skuldir sínar um 1% og eru að skila hagnaði, leyfi sér að hækka kaupið aðeins.

Það getur vel verið að það sé hægt að halda kaupinu niðri með því að festa atvinnuleysið í sessi eins og þetta fjárlagafrv. staðfestir að ríkisstjórnin ætlar sér.
    Ég gat um það að hátekju- og stóreignamenn fá í gegnum frv. niðurfellingu og lækkun á sköttum upp á 1,1 milljarð. En á sama tíma boðar frv. sparnað og lækkun á bótum og eingreiðslum til atvinnulausra, elli- og örorkulífeyrisþega upp á hvorki meira né minna en 850 millj., 850 millj. skulu skertar hjá því fólki sem erfiðast á. Hátekju- og stóreignamenn fá á ný í veski sitt 1,1 milljarð meðan klipið er af kjörum atvinnulausra, elli- og örorkuþega upp á milljarð. Hæstv. fjmrh., vont er ykkar ranglæti en verra er ykkar réttlæti. Það held ég að séu staðreyndir málsins, það held ég að sé sá skilningur sem íslensk þjóð er nú að öðlast á störfum þessarar ríkisstjórnar.
    Þetta fjárlagafrv. eitt og sér kallar á vantraust á hæstv. ríkisstjórn. Hún verður að fara frá.
    Ég nefni nú ekki lengur Alþfl. á nafn, hann minnir mig helst á gjaldþrota hænsnabú. Þó haninn gali í morgunsárið þá eru hænurnar löngu hættar að verpa. Flokkurinn starfar ekki lengur í þágu íslenskra launþega eða verkalýðshreyfingar. Því miður hefur hann brugðist.
    Ég mun við 2. umr. þessa frv. fara yfir ýmsa liði sem heyra undir þær nefndir sem ég á sæti í. Mér sýnist t.d. að landbúnaðurinn fái ekki frekar en fyrr tekið tillit til búvörusamnings og bókana við gerð hans og fjárframlög til atvinnuuppbyggingar í sveitum séu ekki með. Hvað þá, hæstv. landbrh., að það eigi að standa í skilum með jarðabótastyrki sem lögum samkvæmt skal greiða. Staðreyndin er sú að íslenska ríkið skuldar lögum samkvæmt í þann málaflokk 250--300 millj. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. undir þessari umræðu hvort ekki megi eiga von á því að hann standi við þau fyrirheit og þessir liðir komi inn í fjárlögin.
    Enn fremur er vert undir þessum umræðum að ræða það við hæstv. landbrh. að erfiðleikar eru miklir í sveitum. Tekjur sveitafólksins voru skertar verulega í búvörusamningi en það var gert ráð fyrir því að það gæti náð tekjum sínum á nýjan leik í gegnum atvinnu sem er fyrir hendi í landinu. Nú hefur það gerst að atvinnuleysið veldur því að þetta hefur brugðist og ég vil spyrja hæstv. landbrh.: Hvernig ætlar hann að koma í veg fyrir það að fólkið í heilum byggðarlögum, að mér sýnist, muni nú gefast upp? Ég fór um Vestfirði, Dalasýslu, og sá t.d. að sauðfjárbændur höfðu ekki fengið þá vinnu sem þeir væntu og þeir sáu enga leið aðra en að yfirgefa jarðir sínar. Hvers vegna er þá ekki staðið við það fyrirheit, sem gefið var í búvörusamningi, að koma til móts við landbúnaðinn á þeim samdráttartímum sem nú ríkja með því að veita fjármagn til atvinnuskapandi starfa og leysa þannig þennan vanda? Fyrir utan hitt að það blasir við víða í sveitum landsins að menn hafa eygt nýja möguleika á útflutningi landbúnaðarafurða með nýjum hætti. Þess vegna væri kannski vert að ríkisstjórnin og hæstv. landbrh. beittu sér fyrir því að þegar menn eru komnir niður fyrir ákveðin tekjumörk fengju þeir greiddar atvinnuleysisbætur til þess að halda uppi tekjum sínum, gætu setið jarðir sínar og unnið að því að bíða hins nýja tíma sem fram undan er.
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa gumað hér mjög af því að þeir eigi stöðugleikann og þeir hafi staðið fyrir stöðugleikanum í þjóðfélaginu. Það er öllum ljóst sem hafa enn minni í kolli sínum að það var ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar með Steingrím Hermannsson í broddi fylkingar sem náði þeim árangri að semja við aðila þjóðfélagsins, verkalýðshreyfinguna, atvinnulífið, landbúnaðinn, um það að fara í þjóðarsátt og slá verðbólguna niður. Þetta gerðist 1990, hæstv. fjmrh. Sem betur fer hefur verðbólgan haldist niðri en önnur verk þessarar ríkisstjórnar eru með þeim hætti að þjóðarsátt er nú að bresta. Ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin láti enn buga sig í þeim kjarasamningum sem nú eru fram undan.
    Hvað vextina varðar þá þekki ég nokkuð þar til og það er enginn vafi að fyrsta verk hæstv. fjmrh. að hækka vextina á spariskírteinunum úr 6,5% upp í 8,3% voru verstu verk ríkisstjórnarinnar. Þar með hækkuðu útlánsvextir bankanna um 3--4% sem þýddi að hér hófst sú gjaldþrotahrina og skuldasöfnun hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum sem hefur varað síðan. Hins vegar dáðist ég að fjmrh. í fyrra þegar hann áttaði sig loksins á leiðinni og sagði við lífeyrissjóðina, sagði við stóreignamennina á peningum, að hann mundi núna láta bréfin á 5% og ef þeir ætu þau ekki þannig þá væri hann farinn á erlendan markað til að sækja fjármagn. Þetta lækkaði vextina. Hefðu þetta verið fyrstu skref þessarar ríkisstjórnar þá væri staðan í íslensku þjóðfélagi öðruvísi en hún er nú. En því miður fór hún aðra leið. Nú er staðan sú að hæstv. fjmrh., eins og kom fram í gær, ekur pappírum sínum í hjólbörum upp í Seðlabanka til þess að láta kaupa þá þar. Lífeyrissjóðirnir neita að taka þátt í því að lækka vexti. (Gripið fram í.) Stóreignamennirnir neita að kaupa bréfin. Hvar eru þeir í dag? Þeir eru hjá sveitarfélögunum, skuldugu sveitarfélögunum, Hafnarfirði og víðar, þeir eru hjá sterku fyrirtækjunum og segja: Losið ykkur við skuldirnar við bankana, við skulum bjóða ykkur vexti. Og þar eru þeir að selja í dag og fá miklu hærri vexti en hjá ríkinu.
    Það er hart að lífeyrissjóðir landsins sem fólkið í landinu á skuli ekki hafa skilning á því að vaxtalækkun er mikilvægasta aðgerð sem þarf að eiga sér stað og þessir aðilar komast ekki hjá því að taka þátt í þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru.
    Ég vil að lokum taka undir orð hv. þm. Inga Björns Albertssonar um að það er hrikalegt ef menntmrh. kemur ekki með í fjárlagafrv. framlög í íþróttasjóð því margar litlar upphæðir, eins og þessar 14 millj. sem fóru í þann sjóð í fyrra, hafa skilað sér til uppbyggingar í landinu (Forseti hringir.) --- hæstv. forseti, til forvarnastarfs gagnvart ungu fólki um allt land. Þá hafa heimamenn komið með fjármagn á móti og framkvæmdir. (Forseti hringir.) En ríkisstjórnin er söm við sig. Hún hefur ekki skilning nema fyrir lítinn hluta þjóðarinnar, hún er í vinnu fyrir stóreignaliðið.