Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 15:42:05 (288)


[15:42]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér ræðum við síðasta fjárlagafrv. sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram á þessu kjörtímabili og þetta fjárlagafrv. veldur vissulega vonbrigðum. Ég get fallist á að þetta frv. eitt og sér kallar á vantraust á ríkisstjórnina.
    Í frv. kemur fram stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á síðasta árinu á þessu kjörtímabili. Ég hef átt sæti í þessari ríkisstjórn í þrjú ár og þegar þrengt hefur verið að velferðarkerfinu og kjörum fólks í landinu hef ég ávallt skilið ráðherra í ríkisstjórninni svo að þegar kæmi að því að það birti til í efnahagsmálunum yrði batanum skilað til fólksins ekki síst sem helst hefur borið hitann og þungann af því að ná þjóðfélaginu upp úr þeirri efnahagslægð sem það hefur verið í. En þess sér hvergi stað í þessu fjárlagafrv. Þvert á móti er áfram verið að þrengja að kjörum fólksins og afkomu heimilanna í landinu.
    Við sjáum það víða í þjóðfélaginu, sjáum það í þessum fjárlögum að batinn á að skila sér fyrst og fremst til þeirra sem betur standa í þjóðfélaginu. Við sjáum það að fórnir launafólks hafa skilað verulega í þá átt að bæta stöðu fyrirtækjanna í landinu og er það vel. Stærstu fyrirtækin í landinu, sem eru með 40 milljarða í veltunni, hafa bætt afkomu sína um 2,5 milljarða og fyrirtækin hafa lækkað skuldir sínar í bankakerfinu á sl. 12 mánuðum um 9 milljarða á sama tíma og skuldir einstaklinga hafa aukist í bankakerfinu um 4 milljarða kr. Við sjáum líka hvað hefur verið að ske vegna þess að hlutur launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja hefur lækkað mjög mikið á síðustu 6--7 árum. Við erum að tala þar um 7--7,5 milljarða sem hlutur launa í framleiðslukostnaði fyrirtækjanna hefur lækkað um. Það er svo komið varðandi kjör fólksins í landinu að stjórnvöld eru að senda frá sér upplýsingar til erlendra fjárfesta um hvað vinnuaflskostnaður hér á landi sé lítill samanborið við önnur lönd. Þar eru tekin 13 lönd, Norðurlönd m.a., nokkur Evrópulönd, Bandaríkin, og það er státað af því að við borgum langlægsta launakostnað og ekki bara í bein laun heldur einnig í launatengd gjöld. Og það á ekkert og sér ekki stað í þessu fjárlagafrv. að það eigi að umbuna láglaunafólki sem hefur borið hitann og þungann af því að bæta afkomu fyrirtækja, ríkissjóðs og þeirra sem betur standa í þjóðfélaginu.
    Það er það sem ég gagnrýni í þessu fjárlagafrv. vegna þess að ríkisstjórnin hefur sagt með forsrh. í broddi fylkingar: Það er uppsveifla í þjóðfélaginu, það er bati. Ríkisstjórnin hefur skilað árangri, segja ráðherrarnir hver um annan þveran en það á ekki með neinum hætti að skila því til láglaunafólks.
    Svo að ég víki að fjárlagafrv. sem er til umræðu þá er ég ekki sammála því, sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að þetta frv. leyni engu. Ég held nefnilega að staðreyndin sé sú að á útgjaldahlið sé víða um vanáætlun að ræða og gæti ég tekið nokkur dæmi. Og ég held að á tekjuhlið sé víða um ofáætlun að ræða. Við höfum það fyrir okkur varðandi fjárlagafrv. þessa árs að það hefur ekki staðist, hvorki á útgjaldahlið né á tekjuhlið. Tekjur eru áætlaðar 2,5 milljörðum meiri en fram kemur í fjárlagafrv. Og í því frv. sem við ræðum nú er talað um að tekjurnar verði nálægt sömu upphæð hærri á næsta ári. Við getum bara tekið atvinnuleysið sem spáð er á næsta ári og þar með Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég tel að þar megi margt að finna hvernig það er fram sett. Þar er spáð að atvinnuleysi verði undir 5% á næsta ári. Vonandi gengur það eftir. En mér sýnist ýmislegt koma fram í þessum fjárlögum sem segir okkur að þetta standist ekki.

    Atvinnuleysinu höfum við náð nokkuð niður á umliðnum tveimur árum, m.a. vegna þess að við höfum ráðist í átaksverkefni í samráði og samvinnu við sveitarfélögin og það hefur verið sett aukið fjármagn í vegaframkvæmdir og viðhald. Það er ekkert í hendi um það að sveitarfélögin ætli þriðja árið í röð að leggja fram 600 millj. til átaksverkefna og á næsta ári er ekki gert ráð fyrir því viðbótarfjármagni sem farið hefur í vegaframkvæmdir og viðhald á þessu og síðasta ári. Og þess ofan er gert ráð fyrir samdrætti í fjárfestingu hjá hinu opinbera um 25% eða 3,3 milljarða. Vegna atvinnuátaksins með sveitarfélögunum og auknu fjármagni til vegaviðhalds hafa verið sköpuð hér 3.000 heilsársstörf á þessu og síðasta ári. Hvað á að koma í staðinn?
    Við höfum líka haft búbót af Smuguveiðum upp á 3--4 milljarða. Reiknar ríkisstjórnin með því líka á næsta ári?
    Það væri fróðlegt að fá nákvæmar fram á hverju ríkisstjórnin byggir sína forsendu um að atvinnuleysi verði innan við 5% á næsta ári. Það er ekki nægjanlegt að vísa bara til þess að það sé uppsveifla í hagkerfinu.
    Ég vil segja eitt varðandi ýmislegt sem kemur fram í frv. Á útgjaldahlið er það mjög óljóst fram sett og ég hygg að það væri raunar rétt að biðja um að þessari umræðu yrði frestað þar til ríkisstjórnin hefur lagt fyrir þingið sundurliðun á ýmsum þáttum sem koma fram um útgjöld einstakra ráðuneyta sem er mjög óskýrt í þessu frv. og ekki hafa fengist fullnægjandi svör við. Ég er ekki að biðja um það, virðulegi forseti, en mér er skapi næst að gera það en ég ætla þó að fjárln. sem fær þetta til umræðu kafi mjög ofan í það.
    Ég get nefnt hér nokkuð sem mér finnst mjög óljóst í þessu öllu saman. Ég vil nefna það sem hér hefur verið rætt varðandi heilbrrn. Þar er talað um að markmið á niðurskurði yfirstandandi árs á að flytjast á það næsta um 1 milljarð og ef ég skil fjárlagafrv. rétt þá er hér verið að tala um 2 milljarða kr. niðurskurð í heilbrrn. Reyndar er það svo að það er talað um niðurskurð í heild varðandi fjárlagafrv. um 4 milljarða kr. og að um raungildi um 0,5 milljarða. Þetta hefðum við þurft að fá sundurliðað ráðuneyti fyrir ráðuneyti og hvernig á að útfæra einstaka þætti sem þarna koma fram, ekki síst í heilbr.- og menntmrn.
    Það er talað um 250 millj. kr. niðurskurð á heimildarákvæðum hjá Tryggingastofnuninni vegna elli- og örorkulífeyrisþega. Þar er eingöngu vitnað í húsaleigubætur vegna þess að húsaleigustyrkir sem hafa verið greiddir hjá Tryggingastofnun eiga nú að flytjast yfir í félmrn. með upptöku húsaleigubóta. En þar erum við eingöngu að tala um 50 millj. kr. Og hvernig á að útfæra þessar 200 sem eftir standa? Hvað á að skerða í heimildarákvæðum varðandi elli- og örorkulífeyrisþega? Mér finnst að við þurfum að fá nákvæm svör við því, alla vega fyrir 2. umr. fjárlaga.
    Það er gert ráð fyrir því og vil ég láta það koma skýrt fram að í samkomulagi sem ég gerði við fjmrh. um þetta mál var einungis gert ráð fyrir því að styrkir sem nú eru greiddir hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna húsaleigukostnaðar á almennum markaði mundu flytjast til félmrn. en ef um væri að ræða húsaleigustyrki sem eru greiddir t.d. vegna þungrar framfærslu þeirra sem eru í félagslega kerfinu og fá styrki þar þá verður það áfram hjá Tryggingastofnun. Og Tryggingastofnun áætlar þetta um 40--50 millj. kr. Það er ekkert sundurliðað 50 millj. vegna endurskoðunar á bótagreiðslum. Og fleira mætti telja í þessu efni.
    Ég held þess vegna að það væri mjög æskilegt að fá betur sundurliðaðan þennan 4 milljarða kr. niðurskurð. Hvað af honum kallar á lagabreytingar sem þarf að leggja fyrir þingið, hvað er einföld reglugerðarbreyting og hvernig eru einstaka liðir sem hér eru settir fram útfærðir nákvæmlega?
    Ég spyr líka og undrast það að fjmrh. áætli, eins og fram kemur í þessum fjárlögum, að tekjur vegna virðisaukaskatts hækki jafnvel að raungildi á næsta ári miðað við þetta ár, 40 milljarðar vegna 1994 og tæpur 41 milljarður 1995. Það er skýrt með því að tekjur vegna virðisaukaskatts hækki að raungildi vegna aukinnar einkaneyslu. Þetta nægir mér ekki sem skýring. Ég held að hér sé um ofáætlun að ræða. Við erum að tala um að tekjur ríkissjóðs hafi lækkað um rúma 3 milljarða vegna lækkunar á matvælum í virðisaukaskattskerfinu og ég spyr sjálfa mig aftur að því: Er það rétt sem fólk heldur fram ítrekað í mín eyru, á vinnustað eftir vinnustað sem ég fór í sumar, að matvælalækkunin hafi ekki skilað sér til fólksins? Fólk hafi einungis séð hana á fyrstu vikunum og síðan hafi þetta allt hækkað og farið í sama farið aftur? Er fjmrh. tilbúinn að leggja fram á Alþingi yfirlit yfir hvernig þróunin hefur orðið varðandi verðlag á matvælum í einstaka kjördæmum eftir að matarskatturinn var lækkaður? Ég spyr, hæstv. fjmrh., vegna þess að það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur og líka aðila vinnumarkaðarins, ASÍ, sem setti þetta mál á oddinn, að við vitum hvort þetta hefur skilað sér í bættum kjörum fólksins.
    Hér hefur nokkuð verið farið yfir menntamálin og ætla ég ekki að bæta miklu við það sem þar var sagt en mér finnst ýmislegt óljós þar. Ég undrast það og hef sagt það áður úr ræðustól að Alþfl. hafi fallist á að takmarka aðgang að Háskóla Íslands. Það hafa ekki komið fram nein svör við því, að ég best veit, frá þingmönnum Alþfl. þannig að það væri gott að fá það sem fyrst upplýst hvort um það sé samstaða. Síðan er búið að ganga ansi langt í því að skerða Lánasjóð ísl. námsmanna, en það virðist svo að enn eigi að höggva í þann knérunn.
    Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð sem ég nefndi, þá held ég að það sé vanáæltað líka, hæstv. fjmrh. Hér er gert ráð fyrir lækkun. Þetta voru tæpir 3 milljarðar 1994 og nú er gert ráð fyrir tæpum 5,9 milljörðum. Ég spyr t.d.: Er ekki gert ráð fyrir því varðandi þessa áætlun að það hafi þurft einhvern útgjaldaauka vegna t.d. reglugerðar sem var gefin út þar sem réttindi sjálfstætt starfandi, vörubílstjóra og trillusjómanna voru rýmkuð? Ég spyr: Eru inni í þetta líka reiknaðar atvinnuleysisbætur vegna starfsmanna sveitarfélaga? Er það inni í þessu? Ég held að það sé óraunhæft, hæstv. fjmrh., og hef af því nokkra reynslu að um það nái hæstv. ráðherra ekki samstöðu í ríkisstjórn eða þingflokkunum. Það má þá heldur betur hafa breyst ef hann nær því að skera niður réttindi atvinnulausra um 200 millj. með því að tekjutengja biðtíma eftir bótum. Það var alger andstaða við það, ekki bara í þingflokkunum heldur í ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. komst ekkert áfram með það mál. Þess vegna held ég að þessar 200 millj. sem eru settar fram séu óraunhæfar nema eitthvað mikið hafi breyst eftir að ég yfirgaf þessa ríkisstjórn.
    Ég spyr líka um fjármagn til Kvennaathvarfsins og Stígamóta. Það var gerð framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Einn liðurinn í því var að tryggja fjármagn til Stígamóta og Kvennaathvarfsins sem félmrn. var falið að framkvæma. Það var sett á laggirnar nefnd sem skilaði af sér skýrslu. Þar var gert ráð fyrir nokkuð auknu fjármagni til Kvennathvarfsins og Stígamóta, bæði frá sveitarfélögunum og ríki. Hér var einungis um að ræða 2--3 millj. til viðbótar frá ríkinu. Ég sé ekki að það komi fram í þessu fjárlagafrv. 2--3 millj. sem gætu mjög breytt starfsemi Kvennaathvarfsins eins og það er nú brýnt. Það er ekki einu sinni í þessum bata hægt að hugsa sér það að rétta 2 eða 3 millj. til Kvennaathvarfsins, sem þó er í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, til þess að það fólk sem þar vinnur geti bætt þjónustu við þá sem þangað leita.
    Það eru líka skorin niður, sem ég undrast mjög, framlög til fatlaðra og aldraðra að raungildi og það er bætt á Framkvæmdasjóð fatlaðra þannig að hann tekur í auknum mæli á sig rekstur og var nú nóg samt. Það átti að vera tímabundið bara fyrir þetta ár að 25% af hans fjármagni átti að fara til greiðslu á liðveislu. Nú er það ekki bara framlengt heldur hækkað upp í 40% þannig að það eru 50 millj. til viðbótar af fé Framkvæmdasjóðsins sem fer í rekstur.
    Virðulegi forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég geri líka athugasemd við framlögin sem fara í Byggingarsjóð verkamanna og mun gera nánari grein fyrir því við 2. umr. fjárlaga en hef ekki tíma til þess hér. Ég sé að það framlag er ekki einu sinni verðbætt og ekki einu sinni skilað þeim 400 millj. sem þar eiga að koma fram.
    En aðeins örfá orð varðandi húsnæðiskerfið og húsbréfakerfið sem hér hefur nokkuð verið tekið til umræðu. Ég ætla aðeins fara um það örfáum orðum af því að hér hefur verið lagt fram frv. til lánsfjáraukalaga um aukna útgáfu á húsbréfum og ég spyr: Hvenær verður þetta frv. tekið til umræðu og hvenær verður þetta afgreitt? Það er nægjanlega lengi búið að draga lappirnar í útgáfu á þessum húsbréfaflokki. Félmn. varaði við því við afgreiðslu á frv. til fjárlaga fyrir 1994 að 11,5 milljarðar væru ekki nóg og það hefur auðvitað komið á daginn. Vegna þess að við sáum fyrir okkur að vaxtalækkunin, sem þá var orðin, mundi koma fram í aukinni útgáfu á húsbréfum. Ég held að það sé veruleg hætta á ferðum eins lengi og búið er að draga það að gefa út þennan húsbréfaflokk að það komi svo mikið af húsbréfum út á markaðinn í einu að það geti haft áhrif á afföll og vaxtastigið. Ég veit að fjmrh. hefur áhyggjur af því. En ég get alveg ímyndað mér í hvaða glímu hæstv. félmrh. hefur verið í við fjmrn. vegna þess að það er alltaf svo að þegar á að gefa út nýjan húsbréfaflokk þá koma kröfur frá fjmrn. um að þrengja að þessu kerfi. Þetta er nú einu sinni markaðskerfi, hæstv. fjmrh., og þar sem fjmrh. talar fyrir markaðslausnum þá ætti hann að vita hvernig slíkt kerfi á að vinna til þess að það geti virkað eðlilega.
    Það kemur mér mjög á óvart að það eigi að hækka ábyrgðargjaldið um 0,1%. Það er ekkert annað en vaxtahækkun. Það er verið að fara með vextina upp í 5,1%. Við tókum upp ábyrgðargjald upp á 0,25% á sama tíma og við gátum lækkað vextina um 0,25% og farið með þá niður í 4,75% þannig að í heild var ekki verið að auka greiðslubyrði hjá fólki. En nú er verið að 4,75% þannig að í heild var ekki verið að auka greiðslubyrði hjá fólki. En nú er verið að fara yfir 5% markalínuna sem hefur verið heilög hjá þessari ríkisstjórn, svo heilög að hvert húsnæðisútboðið á fætur öðru hefur ekki gengið eftir og Húsnæðisstofnun hefur orðið að vera háð fjmrn. upp á 7 milljarða, það kemur fram í þessu frv., af því að það hefur engu tilboði mátt taka sem hefur farið yfir 5%. En nú er allt í lagi að hækka vextina um 0,1% ef það er verið að hækka þá hjá fólkinu í landinu, íbúðareigendunum.
    Ég skal segja það í lokin, virðulegur forseti, að það er óþarfi, og skal koma nánar að því í umræðunni um lánsfjárlögin, vegna þess að fjármagn sem er geymt í Seðlabanka Íslands og húsbréfadeildin á er á lágum vöxtum, það er á 1% raunvöxtum, ætti að vera á miklu hærri vöxtum. Það skilar 40 millj. nú en ætti sennilega að skila 80 millj. ef vaxtagreiðslur væru eðlilegar í Seðlabankanum og ef það væri framkvæmt þá væri svo sannarlega óþarfi að fara út í það að hækka vexti.