Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:25:06 (294)


[16:25]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það var merkilegt að hæstv. fjmrh. treysti sér ekki til að upplýsa um aflaverðmætið fyrir þjóðarbúið á þeim árum sem ríkisstjórnin hefur setið, hann treystir sér heldur ekki til að upplýsa um heildaraflann. ( HÁ: Hann er ekki sjútvrh.) Nei, en fjmrh. sem notar tekjur af sjávarútvegi sem meginrök fyrir óförum efnahagsstefnunnar hlýtur að hafa svona einfaldar tölur í kollinum, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, ef á annað borð eitthvað er í kollinum á hæstv. fjmrh.
    En ætlast hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, virkilega til þess að umræðan sé á því plani sem hann er að reyna að innleiða hér. Ég fer að rifja upp ummæli mín fyrr á árum sem forsrh. vitnaði hér til um standard.
    Er hann búinn að gleyma því að síðasta ríkisstjórn tók við í 30% verðbólgu, en þessi ríkisstjórn tók við í 4--5% verðbólgu? Er hann búinn að gleyma því að síðasta ríkisstjórn varð að fella gengið stórkostlega til þess að bjarga útflutningsatvinnuvegunum og ná jafnvægi í efnahagsmálum, en núv. ríkisstjórn tók við ástandi þar sem stöðugt gengi hafði ríkt um nokkur missiri? Hvernig ætlar hæstv. fjmrh. að leysa slíkan hnút án þess að það hafi einhver áhrif á kjörin í landinu? Eigum við virkilega að fara niður á þennan Heimdallarstíl í umræðum í þinginu?
    Það var hins vegar afrek hjá síðustu ríkisstjórn að leysa þennan hnút án atvinnuleysis, hæstv. fjmrh., án atvinnuleysis. Ísland er eina landið í Evrópu sem hefur náð verðbólgu niður með þessum hætti án atvinnuleysis. En það sem gerist hins vegar hjá þessari ríkisstjórn, þegar hún tekur við stöðugu gengi í arf, stöðugu verðlagi í arf, er að hún innleiðir atvinnuleysið. Það er það sem ég hef gagnrýnt, hæstv. fjmrh. Við skulum fara í þessar umræður í vetur, það er sjálfsagt mál, en við skulum hafa þær aðeins vandaðri.
    Ég átti orðastað við einn af starfsmönnum ráðherrans uppi í háskóla í gær, Þór Sigfússon. (Forseti hringir.) --- Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. --- Sá starfsmaður ráðherrans leyfði sér að segja að síðasta ríkisstjórn hefði stjórnað í góðæri og er þó maðurinn hagfræðilega menntaður ráðgjafi ráðherrans. Ef staðreyndastaðan er svona í fjmrn. þá er ekki von á góðu.