Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:27:48 (295)


[16:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ef hv. þm. vill endilega fá kennslustund í útflutningsverðmætum þá get ég bent honum á að á bls. 400 í fjárlagafrv. er þjóðhagsyfirlit þar sem m.a. er hægt að sjá útflutning á vöru og þjónustu. Þar kemur í ljós að það er fyrst núna á árinu 1994 sem útflutningsverðmæti verða meiri en á árinu 1990 og 1989. Það varð veruleg minnkun á árunum 1991 og 1992 og þetta veit auðvitað hv. þm. Meira að segja náðu útflutningsverðmætin 1993, þegar allt er talið, ekki því sem þau voru árið 1990.
    Hvað atvinnuleysið varðar þá var það nú þannig að það er ekki nóg að mæla bara atvinnuleysið, því strax á árinu 1988 kom í ljós að það var minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli. Það er hins vegar ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem það framkallast atvinnuleysi. Þetta er hægt að lesa sér til um líka í hagskýrslum og ég veit að ég þarf ekki að skýra það út fyrir hv. þm.
    Hins vegar þegar maður skoðar hvað gerðist hér á landi og hvað gerðist í nágrannalöndunum þá má benda á að það var álíka mikið atvinnuleysi í Svíþjóð og Finnlandi eins og hér á þeim árum sem hv. þm. var í ríkisstjórn. Atvinnuleysið þar fór upp í 10% og jafnvel 20% en staðnæmdist hér í u.þ.b. 5% og er nú á leiðinni niður. Þetta kalla ég líka árangur, þrátt fyrir allt, þegar á móti blæs í efnahagsmálum þjóðarinnar.