Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 16:49:36 (303)


[16:49]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði í sjálfu sér ekki ætlað mér að taka til máls undir þessari umræðu, 1. umr. um fjárlög fyrir árið 1995, en ég sé mig hins vegar knúinn til þess að gera það eftir ummæli hæstv. fjmrh. hér áðan um skattastefnu og skattatillögur okkar framsóknarmanna á síðasta ári.
    Það kann vel að vera að hæstv. fjmrh. sé eins og forsrh. búinn að tala sig upp í það að ráðherrar trúi þeirri glansmynd af efnahagsmálum og efnahagslífi þjóðarinnar sem er dregin upp í fjárlagaræðu ráðherrans fyrir næsta ár. Það má vel vera að það sé þannig komið fyrir hæstv. ráðherra. Ég hef hins vegar til þessa ekki staðið hæstv. ráðherra að öðru en heiðarlegum málflutningi úr þessum ræðustól þó að hæstv. ráðherra sé vissulega stundum strákslegur og geti brugðið á leik, hef ég ekki, yfirleitt ekki staðið hann að öðru en heiðarlegum málflutningi úr þessum ræðustóli. Varðandi þau orð sem hann lét falla um skattastefnu Framsfl. og ég tel að hann hafi beint að þeim tillögum sem Framsfl. lagði fram á síðasta vetri, þá var þar hins vegar um að ræða í hæsta máta óheiðarleagn málflutning og það held ég að hæstv. ráðherra

viti sjálfur.
    Ég sit í efh.- og viðskn. og ég sat í henni á síðasta ári og ég tók þátt í því að vinna þær tillögur sem við framsóknarmenn lögðum þar fram. Ég hygg að það séu ekki mörg dæmi að stjórnarandstaða þó hún stæði ekki að þessu í heild á þessum tíma hafi komið með jafnheildstæðar tillögur til breytinga á skattalögum því að við komum með pakka sem gekk fullkomlega upp. Hann skilaði þeim markmiðum sem hæstv. fjmrh. vildi ná og meira en það og var ódýrari fyrir ríkissjóð og að mati Þjóðhagsstofnunar og það hefur verið staðfest með annarri skýrslu núna í vetur skilaði meiri tekjujöfnun til hinna lægst launuðu en tillögur hæstv. fjmrh. á síðasta ári. Þetta vissi hæstv. ráðherra þá en ég hafði því miður ekki tíma til þess að ná í og geta vitnað beint í þingtíðindi frá síðasta vetri þar sem hæstv. raðherra stóð hér í þessum stól með strákslegu glotti og sagði: Jú, vinir mínar í Framsfl., þetta er alveg rétt hjá ykkur, þetta er allt saman rétt hjá ykkur. En ég var bara búinn að semja við menn úti í bæ um að gera þetta öðruvísi og ég verð að fara eftir því þó að það sé á móti minni sannfæringu. Þetta er ekki orðrétt það sem hæstv. ráðherra sagði en þetta er nákvæmlega inntakið og það veit hæstv. ráðherra, enda segir ráðherrann í þskj. 1, þ.e. fjárlagafrv. á bls. 277 í athugasemdum sem þar eru, með leyfi forseta:
    ,,Eins og þetta yfirlit ber með sér hafa miklar breytingar verið gerðar á virðisaukaskattskerfinu frá því að það var upphaflega lögfest á árinu 1988. Þyngst vegur að undanþágurnar eru fleiri en að var stefnt í upphafi og horfið hefur verið frá því grundvallarmarkmiði að hafa aðeins eitt skattþrep, a.m.k. um sinn. Þessar breytingar hafa óneitanlega dregið úr skilvirkni kerfisins og gert framkvæmdina erfiðari en ella. Það er óumdeilt að í skattalegu tilliti er eitt þrep og sem fæstar undanþágur æskilegasti kosturinn.``
    Nú vil ég taka fram að þarna er einungis rætt um í skattalegu tilliti og þetta er sú stefna sem hæstv. þáv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson framfylgdi á sínum tíma og barðist hér grimmt fyrir því að hér skyldi einungis vera eitt skattþrep. Ég býst við að hæstv. . . .   ( ÓRG: Nei, það var ekki mín stefna. Mín stefna var alltaf að hafa tvö skattþrep. Það voru Framsfl. og Alþfl. sem vildu eitt skattþrep. Ég barðist alltaf fyrir . . .  ) Nú held ég að ég verði að biðja hæstv. fyrrv. ráðherra, núv. hv. þm. að rifja aðeins upp betur því að nú vill svo til að á árinu 1989 þegar verið var að móta hinar endanlegu reglur þá var sá sem hér stendur allan veturinn inni sem varamaður. Þá var ég annarrar skoðunar en ég er í dag. Ég var þeirrar skoðunar þá að það ættu að vera tvö þrep. Ég hef hins vegar komist að annarri niðurstöðu við nánari skoðun. En þá átti sá sem hér stóð í rimmum oftar en einu sinni við þáv. fjmrh. sem var ósveigjanlegur og ekki tilbúinn til að breyta þar nokkru. ( ÓRG: Ég varði stefnu stjórnarinnar.) Nú er komin upp sú skemmtilega staða að nú lýsti hæstv. fjmrh. á síðasta þingi yfir að hann væri þar að framfylgja stefnu andstætt sinni sannfæringu og nú kemur í ljós að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem þáv. fjmrh. ku einnig hafa verið að framfylgja stefnu andstætt sinni sannfæringu, þannig að . . .  (Gripið fram í.) Það er alveg rétt og því hef ég margsinnis . . .  ( Gripið fram í: Þú fórst fyrstur hringinn . . .  ) Forseti, væri nokkur leið að fá hlé til þess að klára ræðu mína fyrir frammíköllum? En það er alveg rétt og það rakti ég hér úr þessum stól á síðasta vetri hvers vegna ég skipti um skoðun í þessu máli. En þetta er nú kannski útúrdúr. Aðalatriðið er þetta að mér ofbauð málflutningur hæstv. fjmrh. hér áðan. Hann vissi það sjálfur að hann var ekki heiðarlegur. Hann vissi það sjálfur að hann gekk þvert á það sem hæstv. ráðherra sagði hér úr þessum sama ræðustól á síðasta ári. Það er einu sinni svo að það er ekki svo einfalt að það að hafa skattkerfin einföld og skilvirk sé bara skattatæknilegt atriði. Það er í því tilliti sem ég birti mína skoðun á síðasta þingi og ég er þeirrar sannfæringar enn. Það er nefnilega pólitískt grundvallaratriði, því að það er grundvallaratriði varðandi það að almenningur í landinu sem þarf að borga skattana hafi trú á kerfinu, hann trúi því að þau séu skilvirk og þau skili árangri.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi það hér áðan, og ég rengi hann ekkert í því, að hann hafi verið þeirrar skoðunar á þeim tíma að þrepin ættu að vera tvö þó hann framfylgdi annarri stefnu, hann framfylgdi að öðru leyti stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem í grundvallaratriðum gekk út á það að gera skattkerfin einfaldari. Og ég út af fyrir sig virði hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson sem var sá fjmrh. sem tók þessa stefnu upp, ég virði hann fyrir þau skref sem hann steig í þá átt og býst reyndar við að þau verði seinna meir e.t.v. talin mikilvægari og merkilegri en margt annað sem sá hæstv. ráðherra hefur unnið síðan. En grundvallarstefna þeirrar ríkisstjórnar í tollamálum og í skattamálum var að koma á einfaldara og skilvirkara kerfi og ég hygg að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þá ráðherra, hafi í meginatriðum unnið að þeirri stefnu og haldið henni að öllu leyti meðan hann var fjmrh., e.t.v. að hluta þvert á sína sannfæringu.
    Stefna núv. hæstv. ríkisstjórnar hefur hins vegar í nánast öllum atriðum gengið þvert á þetta. Það hefur verið gengið í það að gera skattkerfið flóknara og óskilvirkara.
    ( Forseti (KE): Nú vill forseti spyrja hv. þm. hvort hann er að ljúka máli sínu eða hvort hann vill gera hlé á ræðu sinni nú þar sem klukkan er orðin 5. Ef það er kannski aðeins ein mínúta eftir eða svo þá hefði forseti leyft þingmanninum að ljúka máli sínu, en að öðru leyti óskar forseti eftir að hann fresti máli sínu.)
    Virðulegi forseti. Ég á eftir að ræða við hæstv. fjmrh. um vaxtamál og ég held að við verðum þá að fresta því þangað til í kvöld.