Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 20:39:02 (304)


[20:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Ég sá þegar ég settist í sæti mitt að það hafði verið dreift tillögu um vantraust á alla ráðherra ríkisstjórnarinnar og mér sýnist nú þegar ég lít hér til beggja handa úr ræðustól að þeir hafi tekið þetta mjög bókstaflega og hafi tekið þann kostinn að mæta ekki til þinghalds meir. Í það minnsta sést enginn ráðherra hér í ráðherrastólunum og það er þá spurning til hvers við höldum hér áfram þinghaldi, sá sem hér stendur og hv. 4. þm. Reykv. sem erum hér einir mættir ásamt forseta í upphafi þessa fundar. En ég hlýt nú að vona að hæstv. fjmrh. sé á leiðinni því að ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs var einungis ummæli hans í umræðunni hér áðan. Ég sé að hv. 4. þm. Norðurl. e. lítur hér eins og ég á ráðherrastólana en ég get upplýst þingmanninn um það að væntanlega hafa ráðherrarnir tekið framkomna vantrauststillögu svo bókstaflega að þeir hafi ákveðið að mæta ekki til þings meir. ( SJS: Nei, farnir að pakka niður.) Farnir að pakka niður.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, var ég búinn að biðja hér um það og taldi reyndar víst að hér væri mættur hv. 7. þm. Norðurl. e., formaður fjárln. en ég tel alveg nauðsynlegt að hann komi hér og verði við umræðuna eftir þær yfirlýsingar sem hv. þm. gaf hér í sjónvarpsfréttum í kvöld.
    ( Forseti (SalÞ): Það hafa verið send skilaboð til formanns fjárln. þannig að þess er að vænta að hann komi hér til fundar.)
    Það virðist vera nauðsynlegt að við förum og gerum þinghlé og horfum á fréttirnar því að það koma alltaf nýjar og nýjar yfirlýsingar frá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. En í sjónvarpsfréttum í kvöld lýsti hv. 7. þm. Norðurl. e., þingmaður Alþfl. og formaður fjárln., því yfir að það væri eiginlega ekkert að marka þær yfirlýsingar sem kæmu fram í fjárlagafrv. um tekjuhliðina og það ætti að hans mati bæði að viðhalda hátekjuskattinum og sömuleiðis stæði það í hvítbók ríkisstjórnarinnar að fyrir lok kjörtímabilsins yrði búið að taka upp fjármagnstekjuskatt í einhverju formi. Hv. þm., formaður fjárln., sagðist trúa því að ríkisstjórnin stæði við þetta. Og ég hlýt því að spyrja hæstv. fjmrh.: Er það svo að hann sé að leggja þetta fjárlagafrv. fram í eigin nafni einn og sér og hafi ekki stjórnarflokkana á bak við sig? Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þessar yfirlýsingar þýði, hvort þær þýði að það sé í raun einungis annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., sem standi að baki þessu fjárlagafrv. því að það var enginn venjulegur þingmaður sem var að gefa yfirlýsingar hér í kvöldfréttunum. Það var formaður fjárln. og ef ég man rétt, þá lýsti sá hinn sami þingmaður því yfir þegar hann tók við því embætti að það væri í það minnsta ígildi ráðherraembættis og ef eitthvað væri, þá valdameira þannig að ég hlýt þá að taka í það minnsta jafnmikið mark á orðum hans eins og hæstv. fjmrh. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra gefi einhverjar skýringar á þessu hér á eftir. Þetta hlýtur einnig að reka á eftir því að við sem sitjum í efh.- og viðskiptanefnd förum í það sem er okkar hlutverk samkvæmt þingsköpum að kanna tekjuhlið fjárlaganna og kanna hvaða vilji stendur á bak við það sem þar kemur fram. En ég hlýt að vona að hv. 7. þm. Norðurl. e. komi hér til umræðunnar þannig að við getum borið þessar spurningar fram við hann einnig.
    Að lokum aðeins um vaxtamálin sem hæstv. ríkisstjórn hefur mikið gumað af og hæstv. fjmrh. talar mikið um markaðsaðgerðir í því sambandi og síst ætla ég að mótmæla því að í okkar opna hagkerfi ráðast vextir að nokkru leyti af markaði. Þeir ráðast líka að mjög miklu leyti af almennum aðgerðum sem menn á stundum hafa kallað handaflsaðgerðir og það var ekki fyrr en ríkisstjórnin lét undan og féllst á það að það væri skynsamlegt að beita handafli, því að hvað er það annað þegar vöxtum er náð niður, og það var ekki hægt að gera það öðruvísi og ég get út af fyrir sig tekið undir þá aðgerð ríkisstjórnarinnar og verið henni sammála. Vextir voru lækkaðir með hreinum hótunum, með því að segja, þeir sem réðu yfir fjármagninu hér, að ef þeir lækkuðu ekki vexti á ríkispappírum niður í 5%, þá yrði farið á erlenda markaði. Menn hlýddu þessu kalli. En því miður búum við nú hér, þessi vinnustaður okkar er nú stundum dálítið einangraður og það var eins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar, bæði ráðherrar og einstakir þingmenn hefðu ekki hugmynd um það að lengi framan af og í raun fram á daginn í dag var það fyrst og fremst ríkið sem naut þessara lækkuðu vaxta. Fyrirtækin sem á tveimur fyrstu árum þessarar ríkisstjórnar höfðu verið að borga um og yfir 20% vexti af sínu skammtímafjármagni --- það lækkaði að vísu eitthvað en enn þann dag í dag eru þau fyrirtæki sem ekki hafa burði til þess að fara út á markað með skuldabréf að borga 12--14% vexti fyrir sitt skammtímafjármagn. Það er enn að sliga atvinnurekstur hér á landi.
    Virðulegur forseti. Ég á væntanlega eftir að taka þessa vaxtaumræðu aftur seinna við hæstv. fjmrh. en ég sé að nú er mættur í salinn hv. 7. þm. Norðurl. e. formaður fjárln. Ég hlýt að spyrja hv. þm. sömu spurninga og ég lagði fyrir hæstv. fjmrh.: Er það eingöngu Sjálfstfl. sem stendur að framlagningu þessa fjárlagafrv.? Í sjónvarpsfréttum í kvöld sagði hv. 7. þm. Norðurl. e. að hann vildi viðhalda hátekjuskattinum sem þó er skýrt tekið fram í skýringum með fjárlagafrv. og allri kynningu á því að eigi að leggja niður. Einnig sagði hv. þm. að það væri hans skoðun að ríkisstjórnin hlyti að standa við það loforð sitt sem var gefið í hvítbókinni að taka upp fjármagnstekjuskatt, taka upp skatt á fjármagn, áður en kjörtímabilinu yrði lokið. Á sama hátt er því lýst í forsendum með og í sjálfu frv. að það verði ekki gert og það er rökstutt þar. Ég er ekki sammála þeim rökstuðningi, en það kemur fram í frv. ráðherrans þannig að við stjórnarandstæðingar að spyrja: Hvað er eiginlega að ske? Getur þessi ríkisstjórn ekki einu sinni staðið saman

að framlagningu fjárlagafrv. sem er hornsteinn í stefnu hverrar ríkisstjórnar og hornsteinn í hollustu við hverja ríkisstjórn að stjórnarflokkar standi saman að fjárlagafrv. og fjárlagagerð? Svo eru menn hissa á því að við í stjórnarandstöðunni skulum leggja fram vantraust á ríkisstjórn sem vinnur á þennan hátt.
    Ég hlýt að gera þá kröfu bæði til hæstv. fjmrh. og hv. 7. þm. Norðurl. e., formanns fjárln., að þeir skýri þetta mál eilítið betur fyrir okkur hér áður en þessari umræðu lýkur. Hvað átti hv. þm. við með ummælum sínum í kvöld? Þýðir það að Alþfl. standi ekkert að baki þessa fjárlagafrv.? Og hvaða vinna er í gangi af hálfu hv. þm. og Alþfl. til þess að fá hátekjuþrepinu viðhaldið og koma á fjármagnsskatti sem skili einhverjum tekjum inn á næsta fjárlagaár?