Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 20:49:59 (305)


[20:49]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki ætlað mér að blanda mér inn í þessar deilur Sjálfstfl. sérstaklega eða stjórnarsinna annars vegar og Framsfl. hins vegar um virðisaukaskattinn og skýrslu Ríkisendurskoðunar þó að ég geti svo sem sagt ýmislegt um það og m.a. bent á að allt það sem ég sagði í ræðu eftir miðnættið í desember sl. vetur hefur reynst rétt þegar það var nú farið að ganga fram af manni ruglið sem haldið var fram af þeim sem voru á móti þessum breytingum. En ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hér hljóðs er það að hv. síðasti ræðumaður fór að draga nafn mitt og störf mín sem fjmrh. inn í þessar deilur þeirra framsóknarmanna og stjórnarliðsins og ég vildi þess vegna bara ítreka það sem ávallt hefur legið fyrir en hv. ræðumaður virtist hafa gleymt: Það hefur ávallt verið afstaða Alþb. að vilja lægra þrep í virðisaukaskatti á matvæli. Það var stefna sem við reyndum að flytja í síðustu ríkisstjórn en naut ekki stuðnings annarra stjórnarflokka. Niðurstaðan var málamiðlun sem fól í sér svokallað endurgreiðsluþrep á algengum innlendum matvælum en stefna stjórnarinnar var að öðru leyti um eitt þrep. Þá stefnu flutti ég auðvitað sem fjmrh. og varði hana en það var öllum ljóst að stefna Alþb. þá eins og nú var sú að vilja lægra þrep í virðisaukaskatti. Þetta bið ég menn að hafa hjá sér og alveg skýrt en að öðru leyti ætla ég ekki að svo komnu máli að blanda mér í þessar deilur.