Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 20:55:39 (309)


[20:55]

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér kom hv. 7. þm. Norðurl. e. og formaður fjárln. og sagði að að sjálfsögðu stæði hann að baki fjárlagafrv. Þá hljótum við að skoða ummæli hans í sjónvarpinu í kvöld sem innantómt gaspur.
    Ef það er svo að hv. formaður fjárln. lýsir því hér yfir úr ræðustól að að sjálfsögðu standi hann að baki fjárlagafrv. sem hæstv. ráðherra er búinn að lýsa hvaða forsendur eru fyrir þá þýðir ekkert að koma fram í sjónvarpi og slá um sig með hvítbókinni og segja að að sjálfsögðu standi ríkisstjórnin við stefnu sína. Við munum fylgjast grannt með því, stjórnarandstæðingar, meðan á fjárlagavinnunni stendur hvernig þessu máli vindur fram, hvernig þessari rimmu hæstv. fjmrh. og hv. 7. þm. Norðurl. e. formanns fjárln. lýkur. En hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir sem einni af forsendum efnahagsstefnunnar, forsendum fjárlaganna að ekki verði tekinn upp fjármagnstekjuskattur. Þannig að hér er ein sönnunin enn um að það stendur ekki steinn yfir steini í þessu stjórnarsamstarfi. Það hlýtur að vera fáheyrt að við 1. umr. um fjárlagafrv. séu formaður fjárln. og fjmrh. ósammála í grundvallaratriðum um þær forsendur sem eiga að liggja að baki efnahagsstefnunni og fjárlagafrv.