Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:00:01 (312)


[21:00]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal verða við beiðni hv. þm. um það að lýsa því hvernig stendur á tekjuhlið fjárlaga. Ég vil fyrst taka það fram að ég held að það sé nokkuð góð staða að vera fjmrh. þar sem einstakir þingmenn eru óðir og uppvægir að reyna að bæta við tekjurnar. Það er mjög sjaldgæft að vera fjmrh. í þeirri stöðu og ég fagna því satt að segja.
    Það er tvennt sem fyrst og fremst er verið að ræða, annars vegar hátekjuskatt, það var samþykkt á milli flokkanna á sínum tíma að þetta væri tímabundinn skattur til tveggja ára. Hins vegar er um að ræða fjármagnstekjuskatt sem ríkisstjórnin ætlaði sér að taka upp, og það er hárrétt, og ég tel vera mjög sanngjarnan skatt. Niðurstaðan varð sú, vegna þess að um næstu áramót opnast fjármagnsmarkaðurinn til útlanda, að fresta því a.m.k. um sinn. Það er einnig hárrétt hjá hv. þm. að það ríkir fullur skilningur á því á milli þingflokkanna, á milli stjórnarflokkanna, að það þurfi að ræða frekar tekjuhlið fjárlaganna. Ég man aldrei eftir því að þegar lagt hafi verið fram fjárlagafrv. á Alþingi hafi því verið lýst yfir að tekjuhlið fjárlaganna gæti ekki breyst. Fyrr mætti nú vera. Ég held að tekjuhlið fjárlaganna hafi breyst í öll þessi ár sem ég hef verið fjmrh. og hef ég þó verið fjmrh. manna lengst orðið á Íslandi á þessari öld. ( ÓRG: Nei, nei.) ( Gripið fram í: Ekki samfellt.) Ég sagði manna lengst, ég sagði ekki lengst. En það eru að verða full fjögur ár. ( SJS: Of lengi alla vega, við getum verið sammála um það.) Þannig að ég vona að þetta skýri nákvæmlega við hvað er átt og ég skil áhuga hv. þm. á því að halda hátekjuskattinum og það er fleira sem þarf að ræða en fjárlögin styðjum við að sjálfsögðu og ég á von á því að meira að segja sumt á gjaldahliðinni gæti hugsanlega breyst eftir einhverjar viðræður á milli stjórnarflokkanna og einstakra þingmanna áður en þingi lýkur fyrir jól.