Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:04:16 (314)


[21:04]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt að það stóð til af hálfu þessarar ríkisstjórnar að leggja á fjármagnstekjuskatt en frá því hefur verið horfið. Það þýðir ekki endilega að fjármagnstekjuskattur komi aldrei á eða jafnvel ekki á næsta ári eða þarnæstu árum. Ég tel fyllilega eðlilegt að það sé haldið áfram að skoða það mál mjög rækilega og það eru til mjög vel unnin frumvörp um þetta ákveðna tiltekna mál. Það er hins vegar svo að fyrir þá sem þekkja til skattamála í Evrópu þá er þessi skattur víkjandi. Fjármagnsmarkaðurinn er orðinn þannig að hann tekur ekkert mark á landamærum lengur og það eru brögð að því að fjármagnið færist til þeirra landa þar sem fjármagnstekjuskatturinn er minnstur. Til þess að bregðast við þessu hafa ríkin í meira mæli verið að falla frá þessum tiltekna skatti. Það þurfum við að hafa í huga. En ég samþykki það sem hér hefur verið sagt og tek undir það sem hér hefur verið sagt að það sé eðlilegt að fólk greiði tekjuskatt af fjármagnstekjum eins og öðrum tekjum, en þá á að nota tækifærið og lækka eignarskattana á móti að sjálfsögðu.