Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:06:59 (316)


[21:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar vil ég vekja athygli forseta á því að það var liður í því samkomulagi sem reynt var að gera í gærkvöldi milli þingflokka og við lögðum þunga áherslu á það að hæstv. samgrh. yrði ekki aðeins viðstaddur þessa umræðu heldur svaraði einnig þeim spurningum sem til hans yrði beint. Bið ég nú hæstv. forseta að hlýða á mál mitt. Hæstv. samgrh. fékk í dag mikilvægar spurningar sem snerta niðurskurð á fjármagni til samgöngumála í fjárlagafrv. Hér er um að ræða meiri niðurskurð til samgöngumála en menn hafa séð um langt árabil. Satt að segja er það skýrasti niðurskurðurinn í frv. sem er á sviði samgöngumála. Og það er auðvitað alls ekki líðandi, virðulegi forseti, að hæstv. samgrh. sé ekki hér til þess að svara og vil ég beina því til forseta að það sé ítrekað reynt að sækja hæstv. samgrh. til umræðunnar.
    ( Forseti (SalÞ): Forseti vill upplýsa að forseta láðist að geta þess í upphafi fundarins að hæstv. samgrh. og landbrh. tilkynnti fjarvistir vegna veikinda í kvöld. Hann er veikur heima. Hann var veikur í gær, en var hér um tíma í dag, en treystir sér ekki til að koma í kvöld vegna lasleika. Þetta liggur fyrir.)
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga það í sjálfu sér í efa, tel það ekki við hæfi, en mér sýndust ekki nein sérstök veikleikamerki á hæstv. samgrh. þegar hann var hér í allan dag. En ég vona að hann hressist og það skapist þá tækifæri til þess fyrr en í desembermánuði að ræða þennan niðurskurð á vettvangi samgöngumála og beini því til hæstv. forseta að það verði þá sköpuð sérstök umræða hér í þinginu þegar hæstv. samgrh. er orðinn hressari til þess að ræða þennan niðurskurð til samgöngumála. Ég get þess vegna hér og nú farið fram á það fyrir hönd þingflokks Alþb. að það verði sérstök utandagskrárumræða við tækifæri, þegar hæstv. samgrh. er orðinn hress, um niðurskurðinn til samgöngumála. Það er hagsmunamál sem snertir svo mörg byggðarlög að það er nauðsynlegt að ræða það sérstaklega.
    Ég vil einnig segja það við hæstv. fjmrh. að það er sérkennilegt að nota það sem röksemd gegn fjármagnstekjuskatti nú að um áramótin verði opnað að fullu á streymi fjármagns milli Íslands og annarra landa, vegna þess að það er ákvörðun sem er búin að liggja fyrir í mörg ár, var reyndar tekin af síðustu ríkisstjórn. Og mér finnst líka sérkennilegt að Sjálfstfl., sem telur sig styðja atvinnulífið, hefur viljað viðhalda þeirri mismunun sem er á skattlagningu milli atvinnulífsins annars vegar og verðbréfaeignar hins vegar. Arður af hlutafé sem menn setja í fyrirtæki til að byggja upp atvinnulífið í landinu er skattlagður, en ef menn kaupa verðbréf af hæstv. fjmrh. til þess að leggja í púkkið út af ríkishallanum eða kaupa önnur verðbréf, þá er arðurinn af þeim skattfrjáls.
    Ég hef satt að segja aldrei skilið hvers vegna Sjálfstfl., sem segist styðja atvinnulífið í landinu, hefur viljað viðhalda þessari mismunun á skattlagningu atvinnulífinu í óhag, vegna þess að Ísland er eina landið innan OECD sem skattalega hvetur fólk til að leggja ekki peninga í atvinnulífið heldur kaupa í staðinn verðbréf frá hinu opinbera eða öðrum slíkum peningasjóðum sem ekki eru tengd neinum sérstökum atvinnurekstri. Og það er satt að segja ein af furðum íslenskra stjórnmála að þessi sami flokkur, Sjálfstfl., sem berst harðast fyrir þessari mismunun, atvinnulífinu í óhag, skuli komast upp með það, þegar búinn er að vera meiri hluti hér á Alþingi, samansettur af öðrum flokkum, til að leiðrétta þessa mismunun. Það væri náttúrlega fróðlegt að hæstv. fjmrh. færi aðeins nánar yfir það hér hvort honum finnst nú ekki skynsamlegt, jafnvel þótt það hefði aðeins einhver áhrif á vextina, að innleiða skattlagningu fjármagnstekna og þar með styrkja þann hvata sem er til þess að leggja fjármagn í atvinnulífið. Ég man ekki betur en við hefðum sameinast um það hér á síðasta kjörtímabili, þegar núv. hæstv. fjmrh. var í efh.- og viðskn., að innleiða hér skattalegt hagræði fyrir fólk sem væri að leggja fjármagn í það að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Ef ég man rétt er búið að þrengja þetta skattalega hagræði núna hjá þessari ríkisstjórn og það er nú reyndar enn ein sérkennilega þversögnin í íslenskum stjórnmálum.
    Það má í sjálfu sér margt segja við hæstv. fjmrh. um þær umræður sem hér hafa farið fram. En ég vil aðeins á þeim stutta tíma sem ég hef hér til viðbótar nefna það að auðvitað er það þannig að einhver áhrifamesti vaxtavaki í sérhverju hagkerfi er fjmrh. Fjmrh. sem kemur og lýsir yfir tiltekinni skoðun í vaxtamálum er nánast eins og opinber tilkynning um vilja markaðarins. Þannig er það alls staðar í þróuðum efnahagsríkjum. Þegar breski fjármálaráðherrann lýsir yfir skoðun sinni á vöxtum, þá fylgir markaðurinn. Þegar bandaríski fjármálaráðherrann lýsir yfir skoðun sinni á vöxtum, þá fylgir markaðurinn. Þannig er það væntanlega eins hjá okkur. Það er þess vegna sem við höfum gagnrýnt hæstv. fjmrh. fyrir það að ganga nánast á undan markaðnum hér á Íslandi og tilkynna vaxtahækkanir, eins og hann gerði hér í gærkvöldi, sérstaklega í ljósi þess að eina glætan sem er í þessu frv. um bata í atvinnulífinu er ávísun á vaxtalækkun samkvæmt fjárlagafrv. Mér sýnist, virðulegi fjmrh., að ef horft er til þess vetrar sem nú fer í hönd þá séu engar horfur á því að vextir fari lækkandi. Fjmrh. er búinn að tína til ýmis rök fyrir því af hverju vextir munu hækka. Þau rök eru öllsömul rétt. Það eru líka fleiri rök sem koma þar til greina, sem ráðherrann vill ógjarnan nefna vegna þess að þau snerta efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vil líka nefna þetta fjárstreymi frá Íslandi til annarra landa sem nú þegar er orðið og verður væntanlega enn frekar um áramótin.
    Þess vegna væri það mjög fróðlegt ef hæstv. fjmrh. gæti með einhverjum rökum bent á hvað á að framkalla vaxtalækkun hér á næstu 6--9 mánuðum. Er eitthvað sem hæstv. fjmrh. getur bent á sem eigi að orsaka vaxtalækkun? Það er hægt að hafa alls konar skoðun á því hvað viðsiptabankarnir eiga að gera, en það breytir því ekki að þeir framfylgja sinni ákvörðun. Ég vildi biðja hæstv. fjmrh. að reyna að benda á eitthvað skýrt og afmarkað sem leiðir líkum að því að það verði hér vaxtalækkun á næstunni.
    Ég gæti einnig farið rækilega yfir viðskilnað þessarar ríkisstjórnar við ríkisfjármálin, skuldasöfnunina og ýmislegt annað, árangursleysi í aðhaldi í rekstrarútgjöldum og fleira. En ég ætla ekki að gera það hér nú, enda á ég aðeins eftir fáeinar mínútur. En ég vil hins vegar segja það við hæstv. fjmrh. að ég skil heldur ekki samhengið í þeirri stefnu að vera á móti hátekjuskatti en koma svo hér og segja, eins og hæstv. fjmrh. gerði í dag, að það sé eðlilegt að þeir sem hafi meiri tekjur borgi meira fyrir heilbrigðisþjónustuna og menntunina. Það eigi sem sagt að vera stighækkandi greiðslur vegna læknishjálpar, heilbrigðisþjónustu og menntunar eftir tekjum. ( Fjmrh.: . . .  stighækkandi.) Ja, það hlýtur náttúrlega að vera stighækkandi. Alla vega sagði hæstv. fjmrh. það að honum fyndist eðlilegt að þeir sem hefðu meiri tekjur borguðu meira fyrir velferðarþjónustuna heldur en hinir. Ég skrifaði það eftir hæstv. ráðherra. Hvernig í ósköpunum getur ráðherra, sem er að mæla með því hér að það sé stighækkandi greiðsla á velferðarþjónustunni eftir tekjum, verið á móti hátekjuskatti? Ég sé ekkert samhengi í því. Það hlýtur þá nánast að vera bara útfærsluatriði ef hæstv. ráðherra er sammála því að þeir sem hafa meiri tekjur eigi að borga hærra hlutfall.
    Ég verð þess vegna að segja alveg eins og er að þegar hæstv. fjmrh. er knúinn svara um ýmsa veigamikla þætti í þessu frv., þá er ekki rökrænt samhengi í svörunum. Hitt er svo alvarlegast, virðulegi forseti, að þeir tveir þættir sem alls staðar á Vesturlöndum, að dómi færustu hagfræðinga, eru forsendur fyrir hagvexti og bættum lífskjörum, menntun og fjárfestingu, eru þeir tveir þættir sem skornir eru mest niður í ríkisfjármálum þessarar ríkisstjórnar.