Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:25:49 (321)


[21:25]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Nú fer í verra. Nú er meira að segja hæstv. fjmrh. hlaupinn á dyr og er þá þannig komið að hér er aðeins einn, að vísu mjög virðulegur hv. þm. Sjálfstfl. og enginn ráðherra inni í salnum. Bættist nú annar í hópinn.
    Ég ætlaði einmitt að spyrja um það, hæstv. forseti, hvort það væri meiningin og greinilega bara yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að skilja hæstv. fjmrh. eftir aleinan hér með fjárlagafrv. sundurskotið og hriplekt og þeir fáu hæstv. ráðherrar sem hér hafa látið svo lítið að láta sjá sig í dag eru gufaðir upp eins og dögg fyrir sólu og sjást ekki meir. Auðvitað er þetta ákaflega bágborin frammistaða hjá hæstv. ríkisstjórn, að reyna ekki að standa hér eitthvað fyrir máli sínu. Það hlýtur að kosta það að í meðförum þingsins á frv. verður þetta tafsamara að ýmsu leyti, að draga fram þær upplýsingar sem eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að ráðherrarnir hefðu gefið við þessa umræðu. Og það er auðvitað óskaplega hvimleitt þegar spurt er beinlínis um tiltekin atriði að ráðherrunum hæstv. viðstöddum, eins og hér var gert í dag, að svo hverfi þeir bara úr þingsölunum og svari því engu. Hæstv. sjútvrh. er að vísu frægur að endemum fyrir að sinna ekki embættisskyldum sínum í þessum efnum og hefur oft komið til orðaskipta út af því á undanförnum þingum. En það sama virðist vera að gerast með hæstv. samgrh., þó að vísu beri að taka fram að hann var ekki almennilega heill heilsu, en var þó hér í dag og hefði sjálfsagt fengið að koma að sínum svörum og athugasemdum ef hann hefði leitað eftir slíku.
    Ég minni á þetta hæstv. forseti, vegna þess að þeir voru, hæstv. samgrh. og hæstv. sjútvrh., spurðir beinna spurninga, sjútvrh. um fyrirhugaða gjaldtöku af krókaleyfisbátum, sem er ein af forsendum þessa frv., færð sem áætlaðar og áformaðar sértekjur hjá Fiskistofu og kostar lagabreytingu. En hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið að svara þessu. Ég hef þó trú á því að það séu fleiri en bara við þingmenn hér í salnum sem hefðum vissan áhuga á að vita hvað þarna er á ferðinni.
    Þess var einnig óskað að hæstv. samgrh. færi aðeins yfir þann hrikalega niðurskurð sem boðaður er í hans málaflokki. Hæstv. ráðherra hafði enga tilburði uppi til þess. Það fór nú svo, hæstv. forseti, að ég hafði ekki alveg tíma til að fara yfir samgrn. í dag, klára það, ég átti eiginlega einn framkvæmdaflokkinn eftir þar sem eru flugvellirnir. Ég fór í það núna í kvöldmatarhléinu að líta aðeins á það mál og það verð ég að segja að ég varð fyrir enn einu áfallinu. Þar á enn einum staðnum lætur hæstv. samgrh. hreinlega valtra yfir sig. Og ég bíð eftir því að hv. 1. þm. Vestf. og fyrrv. samgrh., Matthías Bjarnason, komist á snoðir um það sem stendur hér í fjárlagafrv. um meðferðina á mörkuðum tekjum til flugvallagerðar. Því það vill nú svo til að sá maður á óskoraðan heiðurinn af því að koma því fyrirkomulagi á á sínum tíma að tekinn var upp sérstakur, markaður tekjustofn í formi gjaldtöku á flugreksturinn og flugfarþega til að standa undir framkvæmdum við uppbyggingu flugvalla og flugsamgangna í landinu. Hvað er hæstv. núv. samgrh. að gangast undir í þessu frv.? Hann er að fallast á að hluti af þessum sértekjum til framkvæmda í flugmálum gangi til að kosta rekstur Flugmálastofnunar eða 70 millj. kr. af sérmerktum tekjum til framkvæmda upp á tæpar 400 millj., sem þýðir jafngildan niðurskurð til framkvæmda á þessu sviði og þá er niðurskurður til framkvæmda kominn í 1,5 milljarða í samgrn. til samgöngumála. 1.122 millj. kr. til vegamála, 285 millj. kr. til hafnagerða og 70 millj. kr. til flugvalla. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi hryggðarmynd er svo óskapleg að ég ætla að vona að hæstv. samgrh. nái heilsu á næstu dögum

og það góðri heilsu, því honum mun ekki af veita ef hann á að hafa sig í gegnum veturinn eins og þetta lítur út hjá honum.
    Auðvitað væri það eðlilegt að hæstv. ráðherra kæmi hér og gerði okkur grein fyrir því hvort það er meiningin að þetta standi svona? Er hæstv. ráðherra búinn að kyngja því að þetta verði svona? Því það hefur ekkert verið upplýst að það séu neinar deilur eða ágreiningur um gjaldahliðina. Hér kom að vísu hv. formaður fjárln. með þær merku upplýsingar, staðfestar af fjmrh., að það ætti eftir að útkljá tekjuhliðina. Nú er það eins og kunnugt er tæpur helmingur af fjárlögunum. Að vísu tæpur, því þessi ríkisstjórn aflar minni tekna heldur en hún eyðir. En það munar auðvitað um minna, að það vanti samstöðu um tæpan helming af fjárlögunum. Það hefur svo sem gerst áður og einhvern tímann var lagt hér fram fjárlagafrv. í tíð fyrri ríkisstjórnar, fyrir nokkru síðan, þar sem einn af ráðherrunum hafði fyrirvara á, að vísu um hina hliðina, þ.e. útgjaldahliðina og þótti nokkuð spaugilegt á sínum tíma. En síðan eru liðin nokkur ár og ætla ég ekki að rifja það upp frekar.
    En nú snýr þetta akkúrat öfugt. Samkvæmt því sem hér hefur verið upplýst er orðin samstaða um útgjaldahliðina, þar með talinn væntanlega þennan hrikalega niðurskurð í samgöngumálunum, og ég gef mér að þó að það eigi að verða svo lágt risið á þingmönnum stjórnarliðsins í vetur að þeir kyngi þessu þá eigi eitthvað eftir skoða tekjuhlutann.
    Nei, þetta er auðvitað, hæstv. forseti, alveg með ólíkindum og hlýtur að kosta að þessu frv. verði meira og minna hent og reynt að vinna það upp á nýjan leik. Því eins og hér hefur rækilega verið sýnt fram á í hverjum málaflokknum á fætur öðrum er frágangurinn þannig að það tekur engu tali. Ég hef aldrei séð, að ég man, útreið af öðru eins tagi og því sem Atvinnuleysistryggingasjóður fær í þessu frv. Það er svo barnalegt að bera það á borð fyrir menn, við þær aðstæður sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum í atvinnuleysismálum, að það þýði að leggja fram frv. og ætla sér að loka því með þessum hætti, það vanti á annan milljarð króna upp á fjárveitingar til að sjóðurinn geti starfað eðlilega á næsta ári, miðað við, því miður, væntanlega vanmetna útgjaldaþörf á þessu sviði. Því miður eru yfirgnæfandi líkur á því að atvinnuleysið verði meira en forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir, m.a. vegna þess að það vantar inn í frv. áhrifin af þeim mikla niðurskurði til framkvæmda sem hér er á ferðinni, eða um fjórðung. Halda menn að þess muni ekki sjá stað í atvinnu í landinu að framlög til samgöngumála, framkvæmda í samgöngumálum, eru skorin niður um 1,5 milljarða kr. Það munar nú um minna. Og ég held því miður að þessar forsendur um
óbreytt atvinnuleysi á milli ára séu vanmat.
    Ég spurði hvort það væri óumbreytanlegt að fjármögnun húsaleigubótanna yrði með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir og ég hefði viljað heyra í hæstv. núv. félmrh., því það ber dálítið á því að ráðherrar í ríkisstjórninni telji sig af einhverjum ástæðum ekki lengur bundna af því sem fyrrv. félmrh. gerði. Nú á það auðvitað ekki að breyta neinu um embættisskyldu ráðherra til þess að virða ákvarðanir forvera síns hvort hann er genginn út úr ríkisstjórn og þingflokki eða ekki, þær eiga að vera jafngildar stjórnsýslulega séð. En það hefur nokkuð borið á þessu, satt best að segja, að ráðherrarnir telji sig lausa allra mála gagnvart því sem hæstv. fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hefur gert. Ég hefði þess vegna viljað heyra hæstv. núv. félmrh. svara því: Telur hann sig bundinn af þessum samningi fyrrv. félmrh. og fjmrh. um að fjármagna skuli húsaleigubæturnar með niðurskurði í félagslega húsnæðiskerfinu? Er það óumbreytanlegt að þetta verði þannig? Vegna þess að auðvitað verður maður að kyngja þeirri staðreynd ef svo er, bölvað sem það er, og þá fara að renna á mann mjög tvær grímur um það til hvers þessar húsaleigubætur þá eru, þó þær færi þarna vissulega til einhverja fjármuni, ef á móti kemur jafngildur niðurskurður og jafnvel rúmlega það, annars vegar í félagslega íbúðarhúsnæðiskerfinu og hins vegar í almannatryggingakerfinu. Þetta er auðvitað mjög dapurleg niðurstaða hæstv. forseti.
    Ég vil svo að lokum nefna aftur eingreiðslurnar. Það er auðvitað alveg með ólíkindum að mönnum skuli detta það í hug, hæstv. fjmrh. eða þá hæstv. félmrh. eða hæstv. heilbr.- og trmrh., því allir eiga þeir hér hlut að máli, að leggja hér fram fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að þetta sé tekið af elli- og örorkulífeyrisþegum og atvinnuleysisbótaþegum. Það getur aðeins þýtt annað af tvennu. Að verkalýðshreyfingin semji um kauplækkun sem þessu nemur á næsta ári og þar með myndist ekki stofn til greiðslu þessara bóta hjá bótaþegunum, eða hitt, sem er væntanlega ætlunin, að svipta þessa hópa þessari kjarabót þó að um þær semjist á almenna vinnumarkaðnum. Þetta getur ekki einfaldara verið. Annað af tvennu hlýtur að þurfa að gerast, ef forsendur þessa frv., eins og það er sett hér fram, eiga að standast.
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að lokum að mótmæla því virðingarleysi sem hæstv. ríkisstjórn, sem vonandi á fáa daga eftir í embætti, því hér er komin fram vantrauststillaga, gagnmerk og verður innan skamms væntanlega samþykkt. En eftir sem áður, þó að stjórnin sé að fara frá, þá er það virðingarleysi sem ráðherrarnir sýna hér með framkomu sinni við þessa umræðu. Að hunsa það algjörlega að svara þeim spurningum sem til þeirra er beint og mæta svo ekki, þeir fáu sem eru á landinu eða eru heilir heilsu.