Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:36:47 (322)


[21:36]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem síðasti ræðumaður nefndi um húsaleigubætur. Ég held að

hv. þm. verði að hafa í huga hve mikið hefur verið byggt af félagslegum íbúðum sl. þrjú ár. Ætli það séu ekki svona 1.500--2.000 félagslegar íbúðir sem hafa verið byggðar sl. 3 ár? Það er svo að sveitarfélögin eiga raunverulega orðið fullt í fangi með að koma til framkvæmda þessum 500 íbúðum sem hafa verið byggðar á ári. Það er nú einu sinni svo að við erum að tala um hóp sem hefur verið settur hjá, þ.e. leigjendur, hóp sem hefur verið settur hjá og ekki fengið aðstoð við leigugreiðslur. Ég tel að það sé til þess vinnandi, jafnvel þótt við séum að fækka félagslegum íbúðum um 100 með því að taka upp húsaleigubætur. Ég minni á að þessir peningar koma ekki alfarið úr félagslega kerfinu, hluti af þessu kemur beint úr ríkissjóði og hluti kemur úr almannakerfinu vegna þess að þeir sem hafa fengið styrki þar fara yfir í þetta húsaleigubótakerfi. Þannig að það er ekkert verið að taka af almannatryggingakerfinu frá því sem verið hefur, hér er aðeins um tilfærslu að ræða. Þeir standa eftir þarna inni í tryggingakerfinu, sem eru í félagslegum íbúðum, ef þeir hafa þurft til viðbótar aðstoð frá tryggingakerfinu. Þannig að ég held að við þær aðstæður, sem voru þegar þetta samkomulag var gert, hafi það verið fullkomlega réttlætanlegt. Og ég minni á að þegar hv. þm. var ráðherra og hefði getað haft áhrif á að koma á húsaleigubótum þá var það ekki gert og þetta er kannski sá hópur sem verst stendur í þjóðfélaginu, þ.e. leigjendur.