Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:43:21 (325)


[21:43]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. um að það er ákaflega dapurlegt og í raun og veru skelfilegt ef það verður niðurstaðan að fjölmörg sveitarfélög treysta sér ekki til að greiða þessar húsaleigubætur. En það dregur bara athyglina að því að þetta fyrirkomulag er út í hött. Það er út í hött. Þetta átti að fara í gegnum skattakerfið eins og vaxtabætur og ef menn trúa því ekki þá eiga menn að hugleiða það augnablik hvort það geti verið skynsamlegt að það sé í valdi sveitarfélaganna, sveitarstjórna hist og her, með fullri virðingu fyrir þeim, að taka um það ákvörðun hvort svona bætur eru greiddar. Og ef þær taka þá ákvörðun að gera það ekki hvað gerist þá? Þá svipta þær sveitarstjórnir íbúa sinna byggðarlaga þeim 60% líka sem koma frá ríkinu. Ég held að stjórnskipulega séð þá orki það mjög tvímælis að ekki skuli gilda jafnræði meðal allra þegna landsins gagnvart a.m.k. þeim 60% hluta sem ríkið kostar. Ég spyr hv. þm.: Hefur hann velt því fyrir sér hvað mundi gerast í málaferlum ef íbúi í sveitarfélagi teldi brotinn á sér rétt sem þegn í landinu, brotna á sér jafnræðisreglu með því að hans sveitarstjórn svipti hann ekki bara því sem er í valdi sveitarstjórnarinnar, 40%, heldur líka því sem kemur úr sameiginlegum sjóði allra landsmanna, ríkissjóði.
    Þetta fyrirkomulag er meingallað, hv. þm., og ég held að við þurfum ekki að ræða það frekar fyrir utan það að það eru fleiri framkvæmdalegir agnúar á málinu. Þegar það svo bætist við að maður er hér með í höndunum þennan samning fyrrv. félmrh. og fjmrh. um fjármögnun á þessu sem er algjör uppgjöf, því miður, hv. þm., ég get bara ekki kallað það annað, það er algjör uppgjöf gagnvart því að sækja viðbótarfjármagn inn í þetta verkefni, þá er bara um hreina tilfærslu innan velferðarkerfisins að ræða og það hlýtur að draga úr gildi þess að þetta náðist fram. Jafnvel þó maður reyni að vera jákvæður. Það er ekki hægt að orða það vægar en svo.