Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:45:40 (326)


[21:45]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég segja að mér finnst hans málflutningur og hans gagnrýni á hæstv. samgrh. ósanngjörn. Ég tel mjög ósanngjarnt af hálfu hv. þm. að hafa uppi svo stór orð í garð samgrh. vegna þess að framlög til samgönguframkvæmda, bæði til hafnargerðar og vegagerðar, hefur verið meiri það sem af er þessu kjörtímabili og verður væntanlega á kjörtímabilinu í heild en menn hafa þekkt yfirleitt. Ég held að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði getað verið mjög ánægður með þann árangur sem hæstv. samgrh. hefur . . .   (Gripið fram í.) Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson veit alveg um það að á Íslandi hefur verið framkvæmt fyrir lán og ekki síst í tíð hans sem fjmrh. þannig að hann þarf ekki að kalla fram í og benda hv. þingmönnum á það.
    En ég tel að þetta sé ósanngjörn gagnrýni hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni vegna þess að framlögin, bæði til vegagerðar og til hafnargerðar, svo ég taki tvö dæmi, eru sennilega þau hæstu sem nokkru sinni hafa verið. Það er hægt að sjá það í töflum sem fylgja fjárlagafrv. og allir sanngjarnir þingmenn held ég að geti staðfest þetta. Að vísu er dregið úr þessum framlögum í fjárlagafrv. frá því sem var í fjárlögum þessa árs en ég hef ekki heyrt betur en m.a. sé rætt um hættu á hækkun vaxta og það vita allir sem eitthvað þekkja til efnahagsmála að okkar vandi liggur í því að lækka ríkissjóðshallann til þess að hemja vexti og þetta ættu þingmenn Alþb. að vita ekki síst.