Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 21:51:50 (329)


[21:51]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta mun að sjálfsögðu allt skýrast í tímans rás. Hér liggur m.a. frammi fyrirspurn til hæstv. samgrh. um skuldastöðu Vegasjóðs vegna þeirrar lántöku sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum. Ef ég man rétt eru lántökurnar 900 millj. á þessu ári og voru um 1.500 millj. 1993 þannig að það er auðvelt að leggja það saman og kemur fljótt í miklar upphæðir.
    Ég get bara ekki annað en bent á það, hv. þm., menn verða að horfa á hlutina eins og þeir eru, að framkvæmdastigið á næsta ári ef til nýframkvæmda verða ekki nema rétt liðlega 2.000 millj. er komið mjög langt niður. Viðhaldið fer vaxandi, það er ákveðin tilhneiging í þá átt, skiljanlega. Eftir því sem umferðin þyngist og meira viðhald er á bundnu slitlagi þá fer meira hlutfallslega í það. Síðan hefur Vegagerðin því miður tekið á sig á þessu kjörtímabili byrðar upp á yfir hálfan milljarð kr. að óbættum tekjum þar sem er ferjureksturinn. Þegar svo þetta bætist við, þessi mikli niðurskurður sem nú er milli ára í framkvæmdafé, þá er útkoman þessi. Svona dapurleg.
    Á þetta er eðlilegt, rétt og skylt að benda og þetta þurfa menn að ræða. Ætla menn að hafa þetta svona? Ætla menn að una þessu, m.a. einnig í ljósi þess atvinnuleysis sem hér er og að það hefur verið talið eitt af því skynsamlegasta sem menn gerðu við þær aðstæður þegar saman fara mikil þörf og mikið atvinnuleysi að reyna að ráðast í einhverjar framkvæmdir? Þetta eru hlutir sem ég held að menn verði að ræða.
    Varðandi fjárveitingar til hafnamála þá vitum við báðir, ég og hv. þm., að þar var orðin alveg gífurleg uppsöfnuð þörf vegna þess að sá málaflokkur hafði verið sveltur hrikalega, sérstaklega á árunum 1983-- 1987. Þegar verst lét í stjórnartíð Sjálfstfl. og Framsfl. mun framkvæmdafé til hafnamála hafa farið nánast niður í ekki neitt. Það voru veittar svona rétt liðlega 100 millj. til framkvæmda og skuldirnar voru nokkurn veginn það.
    Þannig var nú ástandið í þeim málaflokki þá. Það hefur að vísu heilmikið áunnist á tveimur sl. kjörtímabilum, það viðurkenni ég, en þörfin er líka gríðarleg.