Fjárlög 1995

7. fundur
Miðvikudaginn 12. október 1994, kl. 22:22:05 (336)

[22:22]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hefur staðfest það hér að þessi nýju ECU-bréf hafi farið í dag á vöxtum upp í 8,54% sem ég hygg að þyki nú allháir og staðfestir það auðvitað það sem bankamenn telja og fjmrh. hefur hér sagt að það kom vaxandi þrýstingur um hærri vexti í kjölfarið á þessum staðreyndum.
    Ég hef farið hér yfir það að ég tel að bankar hafi allar aðstæður til þess að lækka vexti og viðurkenni það flestir og hljóti að skoða þann möguleika. Varðandi spariféð þá sé ég ekki hvernig bankarnir eiga að vera að bjóða svo há kjör á sparifé sem þeir geta svo ekki aftur lánað út eins og staðan er í því dauða þjóðfélagi sem við búum í um þessar mundir, því eins og ég rakti, þá er það hæstv. fjmrh. sem bjargar bönkunum við að halda vöxtum á mörgum milljörðum króna. Ég gat um það að laust fé hér í

bankakerfinu væri nú um 20 milljarðar sem væri óvenjuleg staða.
    Ég vil vænta þess að hæstv. fjmrh. fari yfir þetta vandræðafrv. sitt og fylli upp í götin. Það hefur gerst einu sinni, það var Albert heitinn Guðmundsson, þáv. fjmrh., sem benti sinni ríkisstjórn fljótlega á það að það var gat í frv. og það yrði að stoppa upp í það og það var gert. Það urðu hallalaus fjárlög. Nú ætti hæstv. fjmrh. að benda ríkisstjórninni á það í fyrramálið að þetta frv. sé fullt af götum og hefja sína vinnu við að stoppa í götin.