Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:03:30 (348)


[11:03]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér hefur verið mælt fyrir gerir ráð fyrir breytingu á lyfjalögum eins og þau voru samþykkt sl. vor eins og fram hefur komið. Það er hins vegar alveg skýrt og málið er reyndar eins og lyfjamál þessarar ríkisstjórnar alveg óskiljanlegt vegna þess að staðreyndin er sú, og það þekki ég þar sem ég sit í hv. heilbr.- og trn., að það var alls ekki vilji hv. nefndar að þessi breyting yrði gerð á lyfjalögunum. Á öllum stigum málsins og ef menn fara í gegnum þá pappíra sem liggja að baki vinnu í nefndinni var aldrei gert ráð fyrir því að þessi breyting yrði gerð á frv. eins og það lá hér fyrir upphaflega. Einhverra hluta vegna fellur þetta út og þessi breyting er gerð.
    Það er reyndar mjög erfitt að ræða lyfjamál þar sem hæstv. heilbrrh. er ekki í salnum og formaður hv. heilbr.- og trn., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, fær jú þetta mál, sem formaður nefndarinnar, til umfjöllunar í nefndinni. Það er auðvitað mikilvægt hvernig um málið verður fjallað þar. Það er til að mynda mín skoðun að ég tel útilokað að ætla að bíða eftir einhverjum breytingum frá heilbr.- og trmrn. á því að ýmsir kaflar núgildandi laga komi fyrr til framkvæmda en gert var ráð fyrir og samkomulag náist um milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég tel útilokað að blanda þessum hlutum saman af þeirri ástæðu að það verður ekkert samkomulag um að brjóta það samkomulag sem var milli stjórnarliðsins á þinginu og stjórnarandstöðunnar um að lyfsölu-, lyfjaverðlags- og lyfjadreifingarkafli núgildandi lyfjalaga tæki ekki gildi fyrr en 1. nóv. 1995 og ætla nú að fara að flýta þeirri gildistöku til 1. jan. 1995. Staðreyndin er sú að það þarf að reyna á þessi ákvæði áður en menn geta gert slíkar breytingar til að fá úr því skorið hvaða áhrif EES-ákvæðin í lyfjalögunum hafa á lyfjakostnað ríkisins og lyfjakostnað einstaklinganna.
    Ég tel því vel koma til greina við þessa umræðu að henni verði frestað þar til hæstv. ráðherra getur verið viðstaddur af þeirri ástæðu að hver svo sem vilji þingsins er þá finnst mér mikilvægt að hæstv. ráðherra láti í ljós skoðun sína, hvort hann sé tilbúinn að styðja það að þetta ákvæði, hvort sem næst samkomulag í nefndinni um nákvæmlega það orðalag sem hér er, eða a.m.k. efnisatriði þess frv. fái fljóta meðferð og vönduð vinnubrögð í þinginu og geti verið samþykkt eitt og sér en ekki verði beðið eftir þeim breytingum er hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur boðað að komi fram á lyfjalögunum.
    Ég held að það sé hárrétt ábending hjá hv. 1. þm. Vesturl. og megi a.m.k. skoða hvort rétt sé að þarna standi dýralæknar eða héraðsdýralæknar, starfandi dýralæknar. Það er a.m.k. alls ekki vilji okkar sem flytjum þetta mál að alþingismenn sem eru dýralæknar fari að selja lyf, það er ekki tilgangur frv., heldur þeir sem þjónustuna eiga að veita úti í hinum dreifðu byggðum og fyrst og fremst snýr þetta að þeim hópi, þ.e. að héraðsdýralæknar og dýralæknar sem þá þjónustu láta í té geti jafnfram afgreitt lyf.
    Ég legg áherslu á það að málið hefur lengi þurft að bíða. Það fái skjóta meðferð þingsins og því verði ekki blandað saman við breytingar á lyfjalögum sem hæstv. heilbrrh. hefur boðað.