Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:09:56 (350)


[11:09]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þessa frv. og með þeim sem hafa lagt áherslu á að þetta verði afgreitt eins fljótt og kostur er. Ég sé ekki að það þurfi að bíða eftir því að hæstv. heilbrrh. beiti sér fyrir málinu. Ég vil a.m.k. vonast til þess að sú afgreiðsla, sem fór fram, hafi verið vegna yfirsjónar hjá hv. heilbr.- og trn. og þess meiri hluta sem þessa lagasetningu studdi. Því sé þetta fyrst og fremst að þeir aðilar þurfi að leiðrétta þessa yfirsjón og ef svo er þá er út af fyrir sig ekki eftir neinu að bíða að gera það og hraða afgreiðslu þessa frv. Að sjálfsögðu er rétt að skoða hvort eitthvert orðalag í því megi betur fara og ná betur þessu markmiði. Vegna þess hvað um knýjandi mál er að ræða tek ég undir það að þessu sé ekki blandað saman við annað efni en um önnur atriði gefst tækifæri að ræða þegar hæstv. heilbrrh. flytur bráðabirgðalög sín. Því miður er margt í þessum lyfjalögum á annan veg en þyrfti að vera og að sumu leyti eru þau lyf, sem menn þurfa að nota, undir sömu sök seld og dýralyfin á ákveðnum svæðum, þ.e. þegar það ákvæði frv. kemur til framkvæmda mun það valda mjög miklum erfiðleikum og jafnvel vandræðum í afskekktum byggðarlögum. En ég ætla ekki að fara frekar út í þá umræðu nú. Ég hef rætt það fyrr við hæstv. heilbrrh. þegar frv. var fyrst lagt fram og tækifæri mun gefast til þess síðar en ég legg áherslu á að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað og ég sé ekki að hv. alþm. þurfi að bíða eftir því að hæstv. heilbrrh. beiti sér fyrir afgreiðslu þess. Það er að sjálfsögðu á valdi hv. alþm. sjálfra.