Lyfjalög

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:16:37 (352)

[11:16]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Vesturl. vil ég segja að það er fjarri því að ég hafi verið með einhvern útúrsnúning í málflutningi mínum. Ég benti á tvö efnisatriði sem ég taldi mikilvæg og lúta að þessu frv. sem hér er til umræðu og varða lyfjalögin og framkvæmd þeirra. Annars vegar að ekki aðrir en héraðsdýralæknar og starfandi dýralæknar hafi heimild til lyfsölu og það er í mínum huga grundvallaratriði. Hins vegar, sem ekki kemur fram í frv., að gera þarf breytingu á 40. gr. í lyfjalögunum sem snýr að lyfjaverðlagskerfinu. Þetta tel ég að sé alveg nauðsynlegt og hefði e.t.v. komið í ljós ef hv. þm. hefði leitað samráðs við t.d. heilbrrh. og landbrh. sem hafa verið að undirbúa þetta mál og reyna að koma því í þann farveg sem heilbr.- og trn. tókst því miður ekki í umfjöllun sinni á síðasta þingi. Þetta er grundvallaratriði. Ég vona svo sannarlega að með því að hæstv. heilbrrh. og hæstv. landbrh. koma að málinu og þeir embættismenn, sem hafa fjallað um þetta, verði kallaðir til nefndarinnar að nýju til frekari umfjöllunar megi takast að koma þessu klúðri til betri vegar. Eins og lyfjalögin eru í dag hvað varðar sölu á dýralyfjum eru þau algerlega ófullnægjandi og ég vona svo sannarlega að þinginu takist að gera á því þær lagfæringar, sem nauðsynlegar eru, og tryggi að framkvæmdin verði ekki jafnóbærileg bændum landsins eins og staðan er í dag.