Tekjuskattur og eignarskattur

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:45:19 (359)


[11:45]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Mál þetta er 20. mál þingsins og eru flm. með mér á þessu máli hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Árni R. Árnason, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Ingi Björn Albertsson og Sólveig Pétursdóttir.
    Í greinargerð með þessu frv. er gerð grein fyrir því að verulegt misræmi er á milli þess hvernig ríkissjóður gerir þeim aðilum sem ekki hafa greitt skatta sína að greiða vexti af þeim vanskilum og hins vegar af því hvernig farið er með mál þeirra aðila, fyrirtækja og einstaklinga sem hafa af einhverjum ástæðum verið dæmdir til þess að greiða hærri gjöld en endanlegur úrskurður segir til um. Gjaldendum ber að greiða dráttarvexti af vangreiddum opinberum gjöldum, sbr. 1. mgr. 112. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt en gjaldandi sem hefur greitt meira en sem nemur endanlegri ákvörðun á sköttum er hins vegar samkvæmt gildandi lögum bætt upp það tímabil sem fé hans var í vörslu ríkissjóðs með vöxtum sem miðaðir eru við vexti af almennum sparisjóðsinnstæðum Landsbanka Íslands á hverjum tíma.
    Í þeim tilvikum að um ágreining er að ræða milli skattstjóra eða ríkisskattstjóra annars vegar og gjaldenda hins vegar um opinber gjöld má vísa þessum ágreiningi til yfirskattanefndar eða dómstóla. Úrskurði yfirskattanefndar má einnig vísa til dómstóla.
    Viðbótarálagning skattstjóra eða ríkisskattstjóra á opinberum gjöldum fer þó til innheimtu áður en fjallað hefur verið um hann hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Getur af þessum sökum myndast verulegt misræmi í meðferð vangreiddra opinberra gjalda annars vegar og ofgreiddra opinberra gjalda hins vegar. Verði viðbótarálagningin dæmd ólögmæt fær gjaldandinn, sem greitt hefur álagninguna jafnvel með dráttarvöxtum, ekki bætt það tjón sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar álagningar þar sem hann fær aðeins almennar sparisjóðsvexti af því fé sem bundið hefur verið í ríkissjóði vegna álagningarinnar auk þess sem hann kann að hafa orðið fyrir kostnaði af kæru málsins eða annarrar meðferðar þess.
    Ekki þykir fært að leiðrétta þetta misræmi með því að láta sömu reglur gilda almennt um vangreiðslur og ofgreiðslur á opinberum gjöldum þar sem þá er hætta á því að gjaldendur gætu myndað hjá sér inneignir til að njóta slíkra vaxtakjara. Í því máli, sem lagt er fram, er lagt til að sömu reglur gildi um vaxtagreiðslur af inneignum gjaldenda sem verða til við endurákvörðun áður ofálagðra gjalda vegna ólögmætrar álagningar eða viðbótarálagningar skattstjóra eða ríkisskattstjóra og vaxtatöku af vangreiddum opinberum gjöldum en ekki í þeim tilvikum þegar inneign myndast af orsökum sem rekja má til gjaldenda sjálfra, svo sem mistaka við framtalsgerð.
    Málið var lagt fram á 117. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu í nefnd. Málið var sent til umsagnar og voru umsagnir undantekningarlaust jákvæðar. Bent var á í einni umsögn að ástæða væri til þess jafnvel að ganga enn lengra en frv. gerir ráð fyrir og gera ráð fyrir því að gjaldandi fengi greiddan þann kostnað sem hann verður fyrir vegna kærumáls þar sem álagning er dæmd ólögmæt.
    Mál þetta er því endurflutt óbreytt frá 117. löggjafarþingi og legg ég til að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. efh.- og viðskn.