Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:49:57 (360)


[11:49]

     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 93/1993, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum. Meðflm. minn að þessu frv. er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir.
    Frv. er í tveimur greinum og hljóðar efnisgrein frv. þannig:
    ,,Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
    Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs getur heimilað einstaklingum, sem verið hafa án atvinnu og á atvinnuleysisbótum í a.m.k. eitt ár, að stunda nám á bótum í allt að átta mánuði í senn í því skyni að bæta með varanlegu móti atvinnumöguleika sína með formlegri menntun, enda liggi fyrir rökstutt einstaklingsbundið mat og meðmæli þess efnis frá stjórn vinnumiðlunarskrifstofu í heimasveit.``
    Í greinargerð kemur eftirfarandi fram:
    ,,Samkvæmt 18. gr. laga nr. 93/1993 er einstaklingi heimilt að stunda lengst átta vikna nám á atvinnuleysisbótum. Slík námskeið eru gagnleg en breyta í reynd litlu um forsendur til atvinnuleitar fyrir þann hóp atvinnulausra sem hafa ófullkomna grunnmenntun og hafa því orðið harðast úti. Með þeirri takmörkuðu og einstaklingsbundnu heimild, sem hér er lagt til að verði lögfest, er leitast við að opna leið til að nýta Atvinnuleysistryggingasjóð til þess að breyta verulega vinnuhorfum einstaklinga þar sem þessi leið þykir vænleg til árangurs.
    Ljóst er að sú skipan, sem hér er gerð tillaga um, getur ekki orðið að almennri reglu, en heimild talin vera til bóta.``
    Ég tek fram að atvinnuleysi er nú nokkuð mikið á íslenskan mælikvarða, meira að segja mjög mikið víða um land, en þó allstaðbundið. Á Akureyri hefur verið landlægt atvinnuleysi, svo ég taki dæmi af héraði sem ég þekki vel til, og svo lengi hefur þetta atvinnuleysi staðið að þar hafa komið upp sömu einkenni og hjá þeim þjóðfélögum þar sem atvinnuleysi hefur orðið viðvarandi í langan tíma.
    Hluti af atvinnulausum þróast nánast út af vinnumarkaðinum og þurfa tækifæri til að geta náð að leysa sín sérstöku vandamál. Það sem er verið að gera tillögu um er fyrst og fremst það að á atvinnuleysisbótum geti menn stundað nám sem miðar að því að bæta með varanlegu móti atvinnumöguleika viðkomandi aðila með formlegri menntun. Hér er ekki gengið mjög langt í þessu máli en þó er gengið inn á þá braut að nýta menntastofnanir okkar til þess að bæta atvinnumöguleika þeirra aðila sem talið er að geti nýtt sér slíka aðstöðu.
    Ég legg til að eftir 1. umr. verði málinu vísað til hv. félmn.