Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 11:57:20 (362)


[11:57]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir jákvæðar undirtektir undir það mál sem hér er flutt. Ég get þess sérstaklega að málið er undirbúið í samvinnu við félagsmálafulltrúa á Akureyri sem hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega og fjallað um þau bæði opinberlega og í blaðagreinum. Í þeim viðræðum sem ég átti við hann kom sérstaklega fram að það væri mjög mikilvægt að einstaklingsbundið mat færi fram á þeim sem fengju að njóta þessara námsmöguleika og að fyrir lægju meðmæli frá vinnumiðlunarskrifstofu á staðnum. Oft er um að ræða mjög gagnlegar upplýsingar sem þar liggja fyrir um stöðu einstakra aðila, sem njóta atvinnuleysistryggingagreiðslna, og það var mat þeirra sem unnu með 1. flm. að málinu að það væri mjög brýnt að þarna væri heimild til þess að leyfa mönnum að stunda slíkt nám að því tilskildu að fyrir lægi rökstutt einstaklingsbundið mat á hverri einustu umsókn. Þetta gengi sem sagt ekki fyrir sig sjálfkrafa.
    Í öðru lagi er með orðalaginu formleg menntun fyrst og fremst átt við menntun innan skólakerfisins. Það getur bæði verið grunnmenntun og einnig fagmenntun. Í sjálfu sér er mjög erfitt að átta sig á því eftir því hver á í hlut hvers konar menntun það er sem kemur sér vel fyrir hlutaðeigandi aðila. Þar af leiðandi er mikilsvert að þetta eigi bæði við um grunnmenntun og einnig fagmenntun.
    Að því er varðar átta mánuði í senn er það tími sem hægt er að taka til endurskoðunar og er ekki sérstaklega miðaður við skólaárið en þarna eiga í hlut aðilar sem yfirleitt hafa lokið grunnskólamenntun og í mörgum tilvikum einnig einhverri framhaldsmenntun og það má taka það til athugunar hvort það er skynsamlegt að breyta þessu.